Telur ekki ástæðu til að hætta við breytingu leikskólagjalda

Telur ekki ástæðu til að hætta við breytingu leikskólagjalda

Telur ekki ástæðu til að hætta við breytingu leikskólagjaldaSviðsstjóri menntasviðs Kópavogsbæjar segir enga ástæðu til að breyta boðaðri gjaldskrá leikskólagjalda. Samfélagið sé komið mun lengra í jafnréttismálum en svo að hækkun leikskólagjalda bitni á mæðrum.

Gjaldskrárhækkunin tekur gildi 1. september og hækkar töluvert fyrir foreldra sem eru með börn sín lengur en sex tíma í vistun á dag.

Leikskólagjöld í Kópavogi verða hækkuð um tugi prósenta um næstu mánaðamót þegar ný gjaldskrá tekur gildi. Dagvistun undir sex tímum verður aftur á móti gjaldfrjáls.

Breytingarnar voru kynntar í byrjun mánaðarins og hafa vakið talsverða athygli.

Fjöldi samtaka hefur skorað á Kópavogsbæ að endurskoða þessar breytingar. Þar á meðal Kvenréttindafélag Íslands, ASÍ, og nú síðast stéttarfélag VR.

Stjórn VR gagnrýnir breytingarnar og telur að þær eigi eftir að hafa í för með sér skerðingu á kjörum launafólks og geti fært jafnréttisbaráttuna mörg ár aftur í tímann.

Anna Birna Snæbjörnsdóttir, sviðsstjóri menntasviðs Kópavogsbæjar, segir að málið hafi verið rætt margoft. Ýmis viðbrögð hafi borist frá ákveðnum stéttarfélögum. „Kannski þurfum við að ná betur til þeirra og upplýsa þau betur um hvað við erum að gera og hvernig þetta er hugsað. Í starfshópnum sem lagði til þessar breytingar sátu fulltrúar þriggja stéttarfélaga, þannig að það er búið að ræða þessi mál fram og til baka.“

„Við teljum að við séum komin lengra í jafnréttisbaráttunni en svo að þetta verði til þess að mæður beri hitann og þungann.“
Anna Birna segir að ekkert í þeim viðbrögðum sé þess eðlis að bærinn verði að hætta við þær breytingar sem búið er að ákveða.

Upplýsa foreldra
Bæjaryfirvöld kynna foreldrum leikskólabarna í Kópavogi breytingarnar þessa dagana. Rætt hefur verið við um helming allra foreldra.

Að sögn Önnu Birnu hafa viðbrögðin verið margvísleg.

„Við finnum að það er eitt og annað sem við þurfum að endurskoða en við erum líka að fá mjög jákvæð viðbrögð frá foreldrum.“

Hún bætir því við að reynt verði eftir bestu getu að mæta þeim sem breytingarnar koma verst við, til dæmis foreldrum í vaktavinnu.

Um tvö prósent barna voru skráð í sex tíma vistun eða skemur í byrjun mánaðarins.

Anna Birna segir að verulega hafi fjölgað í þeim hópi.

„Ég er ekki með nákvæmar tölur yfir hversu mörg börn þetta eru núna en það er mikil fjölgun. Við höfum fengið meiri jákvæð viðbrögð hvað varðar skráningu dvalartíma en við þorðum að vona.“, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri