187 börn sitja heima vegna mönnunarvanda
Enn á eftir að ráða í 83 stöðugildi í 67 leikskólum og meðan það er ekki gert er ekki hægt að taka inn börn. Meirihlutinn í borginni kennir stöðunni á vinnumarkaði um. Vegna lágs atvinnuleysis hafi reynst erfiðara að ráða fólk inn á leikskólana.
Í ályktun Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalista, er þess krafist að kjör og starfsaðstæður leikskólastarfsfólks verði bætt. Vísað er í upplýsingar úr minnisblaðinu um mikla starfsmannaveltu á leikskólum, sem skýri að lítið hafi gengið að bæta mönnun síðustu vikur. Þetta telja Sósíalistar telja endurspegla bág kjör starfsfólks.
Markmið borgarinnar frá árinu 2018 hljóðar upp á að öll börn geti komist inn á leikskóla við tólf mánaða aldur eigi síðar en í árslok 2023.
Nokkuð er í að það náist. Foreldrar barna á öðru aldursári efndu fyrr í haust til mótmæla í Ráðhúsinu, en börn þeirra voru mörg hver orðin eldri en eins og hálfs árs og biðu enn eftir plássi.
Sem viðbragð við mótmælum foreldra kynnti borgin sex úrræði sem áttu að hjálpa til við að vinna á biðlistum; opnun nýrra leikskóla, stækkun annarra, frekari niðurgreiðslur til dagforeldra og bætt vinnulag við innritun.
Ekkert þeirra sneri þó að því að bæta kjör leikskólakennara eða reyna með öðrum hætti að hvetja fleiri til að velja sér leikskólann sem vinnustað, samkvæmt RUV.
{loadposition nánar fréttir}