Vantar starfsfólk á nær helming leikskóla Reykjavíkurborgar
Í samtali við leikskólastjóra þeirra leikskóla sem auglýsa þessa dagana eftir starfsfólki kemur skýrt fram að erfitt er að fá fólk. Margir skólar hafa reynt að ráða í stöður frá því í ágúst. Flestir leikskólastjórar segja litlar undirtektir vera og í nokkrum tilfellum hafa engin svör borist við atvinnuauglýsingum. Fólk í atvinnuleit virðist leita á önnur mið.
„Það er búið að þrengja það mikið að starfinu. Starfsumhverfið er orðið svo erfitt,“ segir Anna Bára Pétursdóttir, leikskólastjóri á Jöklaborg, en hún hefur misst starfsfólk til leikskóla í öðrum sveitarfélögum.
Í sumum leikskólum hefur manneklan orðið til þess að leikskólastjórar hafa þurft að að skerða þjónustu við börn. Þannig hefur leikskólinn Bakkaborg gert skipulag fyrir septembermánuð þar sem hvert barn þarf að vera heima einn dag í viku. Foreldrar eru ekki sáttir.
„Bakkaborg hefur staðið sig einstaklega vel miðað við aðstæður. En borgarstjórn þarf að fara að hysja upp um sig buxurnar. Það þarf að bæta starfsaðstæður,“ segir Halldóra Kristjónsdóttir, móðir barns á Bakkaborg, en hún er nýbyrjuð í nýju starfi og því erfitt að taka frí einn dag í viku. „Þetta er ekki bjóðandi fyrir vinnandi fólk. Ef þetta ástand fer ekki að skána flyt ég í annað sveitarfélag. Ég ætla ekki að bjóða barninu mínu upp á að fá verri skólaþjónustu en börn í öðrum sveitarfélögum.“
Elín Erna Steinarsdóttir, leikskólastjóri Bakkaborgar, segir ástandið svipað og rétt fyrir hrun þegar fólk gat valið milli starfa. Því miður verði leikskólinn oft út undan í þeirri keppni. Í síðustu viku hættu tveir starfsmenn við að hefja störf á leikskólanum því þeim hafði boðist annað starf.
„Við vorum komin með fullmannaðan leikskóla. Svo breyttist það á tveimur dögum. Leikskólar njóta aldrei góðæris. Það eru skerðingar og hagræðing hvort sem það er góðæri eða kreppa. Í raun er auðveldara að reka leikskóla í kreppu því þá fáum við starfsfólk,“ segir Elín.
Dagar sem börnin eru ekki á leikskólanum eru dregnir af leikskólagjaldi barnsins. „En það er mun lægri upphæð en vinnutap foreldra,“ segir Elín. „Fólk þarf að geyma sumarfrí fyrir skipulagsdaga, frí í grunnskólum, sumarfrí og svo framvegis. Það á enginn aukafrí fyrir þessa daga og það hafa ekki allir gott net í kringum sig upp á aðstoð.“, samkvæmt visir.
{loadposition nánar fréttir}