Ungar konur upplifi að allt þurfi að vera „á hreinu“ fyrir barneignir
Frjósemi Íslendinga hefur ekki verið minni frá upphafi mælinga. Doktor í félagsfræði nefnir fyrir því nokkrar ástæður. Kona sem fór í ófrjósemisaðgerð segist upplifa breytta umræðu um barneignir.
Frjósemi, eða fæðingartíðni, hefur ekki verið lægri hér á landi frá upphafi mælinga. Raunar er hún minni en þarf til að viðhalda fólksfjöldanum.
Sunna Símonardóttir, doktor í félagsfræði, hefur rannsakað málið um árabil. Hún nefnir helst tvær ástæður fyrir lækkandi fæðingatíðni:
Annars vegar bíði fólk lengur með barneignir og hins vegar sé stækkandi hópur fólks sem ekki vill eignast börn.
„Það sem ég hef komist að í mínum rannsóknum er að margar ungar konur upplifa að þær þurfi að vera með allt á hreinu áður en þær eignast börn. Þurfi að vera í réttu vinnunni, rétta sambandinu, réttu íbúðinni, búnar að ná að upplifa það sem þær langar að upplifa áður en foreldrahlutverkið tekur við,“ segir Sunna.
„Ég hef líka komist að því að ungar konur upplifa móðurhlutverkið sem mjög krefjandi og kannski tímafrekara og flóknara en áður þekktist.“
Var lengi vel há og stöðug
Yfirleitt er miðað við að fæðingatíðni þurfi að vera um 2,1 barn að meðaltali til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma. Síðustu tólf ár hefur frjósemin ekki náð tveimur börnum, í fyrra var hún 1,59 börn.
Sunna bendir á að fæðingatíðni hér á landi geti jafnvel farið niður. Sem dæmi sé fæðingatíðni lægri í löndum sem við berum okkur saman við.
„Lengi vel var fæðingatíðnin á Íslandi mjög há og stöðug, skar sig þannig frá fæðingatíðninni á hinum Norðurlöndunum. Síðan breyttist þetta, núna erum við á þessari niðurleið – við erum bara á eftir hinum Norðurlöndunum.“
Aldrei langað í börn
Tinna Haraldsdóttir fór í ófrjósemisaðgerð 27 ára. Eftir mörg ár á mismunandi hormónagetnaðarvörnum ákvað hún að hún vildi heldur loka alfarið á möguleikann á að eignast börn heldur en að halda þeim áfram.
„Mig hefur aldrei langað í börn. Svo kom tímabil þar sem ég hélt að mig langaði í börn, af því að maður gerir það sem að samfélagið segir manni – maður svolítið svona fylgir reglunum. Ég þurfti bara tíma til þess að fatta að maður má sleppa því.“
Tinna segir að fjölskylda hennar hafi alltaf stutt ákvörðun hennar um að eignast ekki börn. Það hafi helst verið annað fólk sem hvatti hana til þess.
„Vinafólk eða samstarfsfélagar, fólk í kringum mig. Sérstaklega þegar ég var yngri og sagði að mig langaði ekki í börn, þá kom alltaf:
„Þú munt skipta um skoðun“. Ekki spurt: „Heldurðu að þú munir skipta um skoðun?“, heldur: „Þú munt skipta um skoðun“.“
Hún segir að umræða um barneignir hafi gjörbreyst og fólk láti síður stjórnast af almenningsálitinu.
Það þurfi þó ekki að þýða að fleiri séu að hætta við það að eignast börn.
„Ég held það sé ekki það að fleiri séu að hætta við, þau vildu aldrei gera það til að byrja með en á öðrum tímum hefðu eignast börn.“
Tinna segist ekki sjá eftir aðgerðinni.
„Auðvitað tekur maður þessa ákvörðun ekkert léttvægt, ekki frekar en þegar maður tekur ákvörðun um að eignast börn. En ég hef aldrei séð eftir aðgerðinni eða ákvörðun minni. Ef eitthvað er þá er ég bara þakklátari á hverjum degi fyrir að hafa farið í aðgerðina.“
Þarf að vera auðveldara að eignast börn
Málefnið hefur mikið verið rannsakað á Norðurlöndum. Sunna segir að rannsóknir frá Svíþjóð hafi til dæmis bent til þess að kynslóðir á barneignaaldri upplifi miklar ógnir í samfélaginu, ógnir sem kunni að draga úr löngun til barneigna.
„Þetta geta verið alls konar ógnir: efnahagslegur óstöðugleiki, stríðið í Úkraínu, Covid, náttúruvá og svo framvegis.“
En hvað er til ráða? Sunna segir að það þurfi að vera auðveldara að eignast börn.
„Hjálpum fólki sem vill verða foreldrar með því að búa til samfélag þar sem það getur gert það með þægilegum hætti – án þess að steypa sér í skuldir eða lenda í vandræðum.“
Til dæmis þurfi að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar.
Vantar fólk, sama hvaðan það kemur
Þá óttast Sunna einnig að vaxandi útlendingaandúð muni verða til þess að færri útlendingar setjist hér að.
„Ég óttast svolítið þessa retórík – um að útlendingar séu að koma hérna og „taka og taka og taka“ – þegar staðreyndin er sú, þegar við skoðum þróun fæðingartíðni, að við þurfum á fólki að halda.
Og við eigum að vera að búa til samfélag, að mínu viti, sem tekur fólki opnum örmum og hjálpar því að skapa þetta samfélag með okkur. Okkur vantar og okkur mun vanta fólk.“, samkvæmt RUV.