Þekkja rödd foreldra sinna
„Ungbörn eru miklar skynverur strax við fæðingu og eru háð foreldrum sínum til þess að lifa af.
Það má segja að fyrstu vikurnar fari mikill tími í aðlögun bæði hjá foreldrum og barni þar sem tengslin eru að styrkjast og eflast.
Þetta er ákveðið samspil sem felur í sér að hinn fullorðni skilji merki barnsins, túlki þau rétt og bregðist við þeim á viðeigandi hátt.
Þetta samspil verður til þess að barnið fær sínum andlegu og líkamlegu þörfum fullnægt,“ segir Jóna Margrét Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafarráðgjafi hjá Þróunarstofu heilsugæslunnar.
Hún segir að heili ungbarna sé mjög óþroskaður við fæðingu.
„Börn fæðast með milljónir af taugafrumum í heilanum sem síðan mynda trilljónir tenginga og gerast þær við jákvæð samskipti, eins og snertingu, bros og tal.
Foreldrar eiga því að snerta börnin sín mikið, tala við þau, syngja fyrir þau og láta þeim líða vel.
Það hefur til dæmis sýnt sig að ungbarnanudd gerir mikið fyrir börn.
Það gerir einnig hin svokallaða kengúrumeðferð en þá er barn haft bert við húð foreldra sinna.
Það hefur jákvæð áhrif á þroska barnsins og líðan.“ Ungbörn skynja fleira, jafnvel við fæðingu.
„Talið er að þau þekki rödd foreldra sinna þegar þau fæðast.
Barn sem er nýfætt snýr sér frekar að foreldrum sínum heldur en ókunnugri manneskju þegar báðir tala.
Í kringum fjögurra til sex vikna aldur eru flest börn síðan farin að brosa til þeirra sem kjá framan í þau,“ segir hjúkrunarfræðingurinn og bætir við að þetta séu aðeins nokkur atriði af mörgum sem hægt er að ræða í tengslum við skynjun og þroska ungbarna og barna fyrstu árin.
Heimildir: Fréttablaðið