Tengist notkun sýklalyfja líkum á brjóstakrabbameini?
|

Tengist notkun sýklalyfja líkum á brjóstakrabbameini?

Tengist notkun sýklalyfja líkum á brjóstakrabbameini?Baksvið og mikilvægi rannsóknarinnar: Sýklalyf eru meðal algengustu lyfja sem læknar hafa vísað á síðastliðna hálfa öld. Lyf þessi meðhöndla sýkingar af völdum sýkla (baktería) og annarra örvera – lifandi vera sem eru svo smáar að eingöngu er hægt að koma auga á þær í smásjá. Reglulega er skrifað upp á sýklalyf við bólum, graftarþrymlum, eyrnabólgum, hálsbólgu og ennis- og kinnholubólgu. Sýklalyf gera einnig gagn þegar meðhöndla þarf alvarleg veikindi svo sem lungnabólgu og heilahimnubólgu. Síðan þau fundust árið 1929 hafa sýklalyf bjargað óteljandi mannslífum.

Á síðustu árum hafa vaknað áhyggjur af því að verið sé að ofnota og misnota sýklalyf og þær áhyggjur fara vaxandi. Til dæmis er iðulega skrifað upp á sýklalyf í tilfellum þar sem ekkert gagn er að þeim eins og við inflúensu sem orsakast af veirum.

Hafi þér einhvern tíma liðið illa af slæmu kvefi eða flensu áttu auðvelt með að skilja hvers vegna svo oft er skrifað upp á sýklalyf – jafnvel áður en ljóst er hvort veikindin stafa af bakteríusýkingu eða ekki. Þú ert veik og þér líður illa en þú lætur þig hafa það að dragnast til læknis. Þú vilt fara frá honum með eitthvað sem þú getur gert eða tekið inn til að bæta líðan þína. Sumir sjúklinga biðja um – krefjast þess jafnvel – að fá skrifað upp á sýklalyf. Margir læknar láta undan óskum sjúklinga sinna þegar þeir eru beittir þrýstingi. Kannski hugsar þú með þér, “hvað, það getur nú varla skaðað þótt ég fái sýklalyf til vonar og vara.” Þegar sýklalyf eru iðulega notuð við einhverju sem þau geta ekki læknað (eða þegar fólk klárar ekki sýklalyfjameðferð) koma hins vegar bakteríurnar sem lyfinu er ætlað að vinna á sér upp ónæmi eða þoli fyrir lyfinu. Það hefur í för með sér að næst þegar skrifað er upp á sýklalyf við bakteríusýkingu skilar meðferðin ekki tilætluðum árangri. Fyrir almenning þýðir það að á sveimi eru margs konar bakteríur sem eru allsendis ónæmar fyrir mörgum tegundum sýklalyfja. Þessar áhyggjur hafa orðið til þess að margir læknar reyna nú að fara varlega í að ávísa sýklalyf. Engu að síður er til fólk sem þarf nauðsynlega að taka inn sýklalyf langtímum saman.

Á allrasíðustu árum hafa einnig vaknað áhyggjur af því hvort hugsast geti að á sama tíma og lyfin lækna margs kyns sjúkdóma auki þau jafnframt líkur á öðrum sjúkdómum. Rannsakendur hafa einkum spurt sig hvort eitthvert samband geti verið milli notkunar sýklalyfja og hættu á krabbameini. Ástæðan er þessi:

 • Sum sýklalyf trufla hæfileika líkamans til að vinna þau efni úr fæðu sem er ætlað að verja hann gegn krabbameinsfrumum.
 • Tetrasíklín og önnur sýklalyf auka framleiðslu líkamans á efnum sem heita einu nafni prostaglandín. Þessi efni auka ónæmisviðbrögð líkamans. Aukin ónæmisviðbrögð leiða til framleiðslu á efnum sem TALIÐ ER (ekki sannað) að auki hættu á krabbameini. (Rannsóknsýndi að þegar konur bældu reglulega efnið prostaglandín með lyfjum eins og ibuprofen (bólgueyðandi lyfi), dró úr hættu á brjóstakrabbameini.

Í finnskri rannsókn sem birt var árið 2000 var komist að þeirri niðurstöðu að konum sem tóku sýklalyf við blöðru- og þvagrásarbólgu væri hættara við brjóstakrabbameini en konum sem ekki höfðu fengið bólgur og því ekki tekið sýklalyf. Margs kyns annmarkar voru hins vegar á þeirri rannsókn. Aðeins voru skoðaðar fáeinar tegundir sýklalyfja og ekki hægt að lesa út úr henni hve lengi konurnar tóku lyfin.

Þeir sem stóðu að rannsókninni sem hér er til umfjöllunar ákváðu að rannsaka betur hugsanleg tengsl sýklalyfjanotkunar og hættu á brjóstakrabbameini.

Efniviður og aðferðir:

Rannsakendur frá Seattle í Washingtonfylki og frá Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna í Washington D.C. (National Cancer Institute) skoðuðu sjúkra- og lyfjaskrár kvenna sem skráðar voru í mikla heilsuverndaráætlun í fylkinu. Skrárnar sýndu alla lyfseðla sem skrifaðir höfðu verið út fyrir konurnar á 20 ára tímabili. Þær sýndu líka við hvaða sjúkdómum konurnar höfðu fengið meðferð, þar á meðal var brjóstakrabbamein.

Með því að nota skrárnar gátu rannsakendur borið saman notkun sýklalyfja hjá tveimur ólíkum hópum kvenna:

 • Hjá 2.266 konum sem höfðu greinst með illkynja brjóstakrabbamein,
 • og hjá 7.953 konum sem ekki höfðu greinst með sjúkdóminn.

Rannsakendur reyndu eftir megni að tryggja að jafnmargar konur væru í báðum hópunum

 • á svipuðum aldri,
 • með svipaða menntun,
 • af sama kynþætti,
 • sem hefðu átt jafnmörg börn
 • sem hefðu verið skráðar í heilsuátakið nokkurn veginn jafn lengi.

Þegar rannsakendur báru saman hópana reyndu þeir að laga ólíkar niðurstöður að öðrum atriðum sem gætu dugað til að skýra mismun og einnig haft áhrif á líkur á brjóstakrabbameini, þar á meðal:

 • Hvenær fyrstu blæðingar hófust,
 • offitu,
 • tilfelli brjóstakrabbameins í fjölskyldunni (fjölskyldusögu),
 • notkun hormóna (getnaðarvarnapilla og hormónalyfja við tíðahvarfaeinkennum),
 • á hvaða aldri kona eignaðist sitt fyrsta barn,
 • hvort hún var enn á frjósemisaldri eða komin úr barneign,
 • aldur við tíðahvörf.

Þeir notuðu sjúkraskrár til að finna þessar upplýsingar fyrir eins margar konur og mögulegt var.

Hvað nú ef líkur á brjóstakrabbameini tengdust sjúkdómnum sem sýklalyfinu var ætlað að lækna en ekki sjálfu lyfinu? Til að átta sig á því skoðuðu rannsakendur tvo hópa kvenna sem tóku sama sýklalyfið í jafn langan tíma – en í ólíkum tilgangi: til að lækna bólur og við sýkingu í öndunarfærum. Rannsakendur báru síðan saman hlutfall brjóstakrabbameins í hópunum tveimur.

Niðurstöður:

Rannsakendur höfðu undir höndum nokkuð fullkomnar upplýsingar um það magn sýklalyfja sem konurnar höfðu notað, hvort þær höfðu greinst með brjóstakrabbamein og á hvaða stigi stjúkdómurinn greindist, svo og hversu lengi þær höfðu verið skráðar í heilsuátakið. Síðan stilltu þeir saman öllum útreikningum til að kanna hvort eitthvert hugsanlegt samband væri milli notkunar sýklalyfja og þess að fá brjóstakrabbamein.

Mikilvægt er að hafa í huga að rannsakendur höfðu ekki undir höndum fullkomnar skrár um nokkra sannaða (ekki bara mögulega) áhættuþætti brjóstakrabbameins. Um það bil 20 af hverjum 100 sjúkraskrám innihéldu ekki tæmandi upplýsingar um eftirfarandi, sannaða, áhættuþætti: fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein, aldur við fyrstu blæðingar, offitu og aldur við fæðingu fyrsta barns. Rannsakendur höfðu ekki heldur undir höndum áreiðanlegar upplýsingar um notkun hormónalyfja við tíðahvarfaeinkennum hjá um það bil 13% kvennanna.

Rannsakendur höfðu heldur ekki tæmandi upplýsingar um kynstofn eða menntun um helmings kvennanna. Þótt þessir þættir séu ekki beinlínis tengdir líkum á brjóstakrabbameini, gætu þeir haft áhrif á niðurstöður könnunarinnar. Til dæmis gætu þessir þættir haft áhrif á hversu oft konur veiktust og þurftu á sýklalyfjum að halda, hversu oft þær fóru í brjóstamyndatöku í leit að krabbameini og ýmislegt annað viðkomandi heilsufari sem bæði gæti tengst notkun sýklalyfja og líkum á brjóstakrabbameini.

Þegar allar tiltækar upplýsingar höfðu verið skoðaðar komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að því meiri sýklalyf sem konurnar höfðu tekið inn, þeim mun meiri líkur voru á að þær fengju brjóstakrabbamein. Á um það bil 17 ára tímabili – sem var eins konar meðaltal – var konum sem höfðu tekið sýklalyf í meira en 500 daga eða fengið fleiri en 25 lyfseðla á sýklalyf, tvöfalt hættara við brjóstakrabbameini en þeim sem ekki höfðu tekið sýklalyf.

Líkurnar jukust minna hjá konum sem tóku sýklalyf í skamman tíma. Líkur á að konur greindust með krabbamein sem höfðu fengið skrifað upp á sýklalyf á bilinu 1 til 25 sinnum á sama 17 ára tímabili voru 1,5 sinnum meiri en hjá konum sem ekki tóku sýklalyf. Séu meðaltalslíkur á að fá brjóstakrabbamein á tímabilinu sem rannsóknin náði yfir 5%, þýðir 1,5 sinnum aukning að líkurnar fara í 7,5%.

Rannsakendur fundu sömu aukningu óháð því hvert sem sýklalyfið var. Konur sem tóku sams konar sýklalyf í jafnlangan tíma höfðu sömu líkur á að fá brjóstakrabbamein þótt þær tækju lyfin til að lækna ólíka sjúkdóma.

Ályktanir:

Rannsóknin leiddi í ljós að notkun sýklalyfja tengdist auknum líkum á brjóstakrabbameini. Rannsakendur lögðu hins vegar áherslu á að rannsókn þeirra sýndi ekki að sýklalyf væru ORSÖK brjóstakrabbameins.

Hugsanlegt er að konur sem taka inn meira af sýklalyfjum en aðrar séu ónæmisbældar og það gerir þeim hættara við að fá mismunandi sjúkdóma, þar á meðal sýkingar og brjóstakrabbamein. Sé svo, kann veiklað ónæmiskerfi að tengjast auknum líkum á krabbameini en EKKI það að taka inn sýklalyf.

Rannsakendur stóðu einnig frammi fyrir því að sjúkraskrár sem þeir studdust við höfðu í mörgum tilfellum ekki að geyma fullkomnar upplýsingar um mismunandi áhættuþætti brjóstakrabbameins. Þeir gátu því ekki útilokað að ólíkir áhættuþættir, en ekki mismunandi notkun sýklalyfja, gæti skýrt niðurstöðurnar. Til dæmis er hugsanlegt að konur sem taka inn meira af lyfjum við sýkingum séu einnig líklegri til að taka inn lyf við tíðahvarfaeinkennum (hormónameðferð með estrógeni og prógesteróni). Áræðanlegar rannsóknir hafa sýnt að líkur á brjóstakrabbameini aukast hjá konum við það að taka lengi tíðahvarfahormóna. Séu konur sem taka inn hormóna líklegri til að taka inn sýklalyf en hinar og aðeins fást upplýsingar um notkun sýklalyfja, er auðvelt að hrapa að þeirri ályktun að sýklalyf auki líkur á brjóstakrabbameini. Rétt niðurstaða væri hins vegar sú að auknar líkur á brjóstakrabbameini tengdust notkun tíðahvarfahormónum.

Mikilvægt er einnig að hafa í huga að rannsóknin byggðist á liðinni tíð. Með rannsókninni var litið til kvenna sem höfðu þegar greinst brjóstakrabbamein og reynt að finna samband milli krabbameinsins og annarra þátta í lífi kvennanna. Þannig könnun er alls ekki jafn áreiðanleg og könnun sem gerð er “fram í tímann”, þar sem fylgst er með tveimur eða fleiri hópum ÁÐUR EN sjúkdómurinn lætur á sér kræla til að kanna hvernig ákveðið atriði hefur áhrif á hversu margar konur í hvorum hópi veikjast.

Lærdómur sem draga má:

Við fyrstu sýn geta niðurstöður rannsóknarinnar virst ógnvekjandi. Það er nú einu sinni svo að margar okkar hafa tekið inn sýklalyf um ævina og við gefum þau börnum okkar og öðrum fjölskyldumeðlimum. Mikilvægt er að hafa í huga að rannsóknin sýndi EKKI fram á að sýklalyf valdi brjóstakrabbameini. Eins og rannsakendur bentu á kunna konur sem notuðu mikið af sýklalyfjum að hafa verið ónæmisbældar eða aðrir þættir gert þeim hættara við brjóstakrabbameini en konum sem ekki tóku sýklalyf. Hingað til hafa engar rannsóknir sýnt fram á að sýklalyf valdi því beinlínis að krabbameinsæxli byrjar að vaxa. Rannsakendur vöktu einnig athygli á því að þeir höfðu ekki undir höndum tæmandi upplýsingar um marga, sannaða áhættuþætti brjóstakrabbameins. Það þýðir að þeir gátu ekki útilokað þann möguleika að einhverjir aðrir þættir kynnu að vera ábyrgir fyrir þeim mismiklu líkum á brjóstakrabbameini sem fram komu milli hópanna tveggja.

Mikilvægt er auk þess að hafa í huga að sýklalyf eru eitt áhrifaríkasta lyf við sýkingum sem til er. Á það ekki síst við um konur sem verða fyrir sýkingu þegar ónæmiskerfið er veiklað af lyfjameðferð við krabbameini. Eftir því sem best er vitað nú, vega því kostir sýklalyfja miklu þyngra en hugsanleg hætta á tengslum við brjóstakrabbamein.

Hafi læknir þinn ávísað sýklalyfi handa þér, sérstaklega ef það er langur kúr, skaltu fullvissa þig um að þú vitir:

 • Hvað sýklalyfinu er ætlað að lækna,
 • hvað þú átt að taka mikið af því,
 • hvað þú átt að taka það lengi.

Þegar því verður við komið skaltu fá að vita hvort það sem að þér gengur er í raun og veru bakteríusýking – áður en þú ferð að taka inn sýklalyf. Og sé svo, reyndu þá að komast að því hvaða sýklalyf er best að nota.

Læknar geta séð hvort þú ert með bakteríusýkingu með því að biðja um “ræktun”. Þá er tekið sýni úr líkamsvökva eða vessa þar sem sýkingar gætir og rannsakað hvort í sýninu finnast bakteríur eða aðrar örverur. Líkamsvökvar eða -vessar sem notaðir eru til að rannsaka þetta geta verið:

 • Þvag, virðist vera um blöðrubólgu að ræða,
 • munnvatn eða hráki sé talið að um hálsbólgu af völdum streptókokka sé að ræða,
 • blóðsýni, sértu í lyfjameðferð við krabbameini, með einhvern hita og finnst þú óvenju þróttlítil.

Leiði ræktun í ljós bakteríusýkingu er gerð önnur rannsókn. Þá er kannað næmi bakteríunnar fyrir mismunandi tegundum sýklalyfja og hversu vel þau vinna á henni. Læknir þinn notar niðurstöðurnar til að velja það sýklalyf handa þér sem best hentar til að ráða niðurlögum sýkingarinnar.

Sértu með talsverðan hita og hvítum blóðkornum hefur fækkað af lyfjameðferð, mun læknir þinn trúlega setja þig tafarlaust á sýklalyf eftir að blóðsýnið hefur verið tekið til ræktunar. Með því móti færðu þá vörn sem sýklalyf veitir eins fljótt og unnt er. Síðan er hægt að skipta um lyf um leið og niðurstöður úr ræktun liggja fyrir.

Skynsamlegt er að forðast að taka sýklalyf við veirusjúkdómum (eins og flensu) eða öðrum sjúkdómum sem sýklalyf hafa enga möguleika á að vinna á. Svo lengi sem þú ferð varlega í að taka inn sýklalyf – og læknir þinn fer varlega í að ávísa þeim handa þér – geturðu nýtt þér kosti lyfjanna með lágmarksáhættu.

Margra rannsókna er þörf áður en vitað verður með vissu hvort raunveruleg tengsl eru á milli notkunar á sýklalyfjum og aukinnar hættu á brjóstakrabbameini.

Heimlildir: Brjostakrabbamein.is

oli
Author: oli

Vefstjóri