Starfsmenn Arion himinlifandi með daggæsluna
Arion banki ætlar á næstu mánuðum að opna daggæslu fyrir börn starfsmanna. Forstöðumaður segist vona til þess að daggæslan létti líf fleiri en bara starfsmanna.
Dagvistunin verður í Borgartúni 21, rétt við hliðina á höfuðstöðvum Arion banka. Áætlað er að hún opni um áramótin. Dagvistunin er ætluð börnum á aldrinum tólf til 24 mánaða. Fyrst um sinn verður boðið upp á tíu pláss.
„Þetta er tilraunaverkefni hjá okkur til að létta undir með foreldrum og tryggja að þeir komist fyrr inn á vinnumarkaðinn,“ segir Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs hjá Arion banka.
Í byrjun september voru 658 börn á biðlista eftir plássi í leikskóla í Reykjavík. Af þeim voru 486 á aldrinum tólf til átján mánaða.
„Við höfum fundið fyrir því, eins og margir aðrir í samfélaginu, að það getur verið áskorun að finna dagvistunarpláss. Við leggjum okkur fram í því að vera fjölskylduvænn vinnustaður og þetta er okkar leið til að bæta við markaðinn. Létta undir, ekki bara með okkar fólki heldur vonandi öllu samfélaginu líka,“ segir Helga.
Það á eftir að útfæra ýmislegt hvað varðar dagvistunina sem starfsfólk fengu fyrst að vita af í dag. Unnið er að því að gera húsnæðið tilbúið, ráða inn starfsfólk og ákveða hvernig plássunum verður úthlutað. Starfsmenn segjast afar ánægðir með nýjungina en hjá Arion starfa yfir 800 manns.
„Við settum frétt á innri vefinn hjá okkur og það hafa verið óvenju mikil viðbrögð. Margir að lýsa yfir ánægju sinni með þetta,“ segir Helga, samkvæmt visir.