Reglur um farsímanotkun barna í nær öllum grunn­skólum

Reglur um farsímanotkun barna í nær öllum grunn­skólum

Meirihluti skóla hefur sett reglur um farsímanotkun barna. Oftast er hún háð takmörkunum og jafnvel staðsetningu. Algengara er að eldri börn megi vera með síma en þau yngri. Stundum þurfa börnin símann til að komast í almenningssamgöngur og fá því að hafa hann í töskunni.

Langflestir skólar hafa sett reglur um símanotkun nemenda og nemendur komið að gerð reglnanna í rúmlega helmingi þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umboðsmanni barna en embættið framkvæmdi í október könnun meðal allra grunnskóla á landinu þar sem spurt var um reglur varðandi farsíma í skólum. Niðurstöður könnunarinnar voru birtar í skýrslu um stöðu barna sem var lögð fram fyrir barnaþing 2023.

Í tilkynningu umboðsmanns segir að af 129 grunnskólum á landinu sem svöruðu könnun voru reglur í 126 þeirra. Nemendur komu að gerð reglnanna í 72 skólum eða 59 prósent þeirra.

Símar voru leyfðir í 70 skólum eða 54 prósent þeirra en samkvæmt könnuninni er algengara að nemendur í 8. til 10. bekk megi nota síma. Alls er það heimilt í 65 skólum fyrir 8. bekk og 66 skólum fyrir 9. og 10. bekk. Í aðeins 22 skólum eru símar leyfðir fyrir nemendur í 1. til 7. bekk.

Reglur um farsímanotkun barna í nær öllum grunn­skólum

Þá kom einnig fram í könnuninni að notkunin væri oft háð takmörkunum, leyfð á ákveðnum tímum og skilgreindum svæðum. Þá er það oft þannig að nemendur megi koma með símann en að hann eigi að vera í tösku nemanda og slökkt á honum á skólatíma. Í nokkrum svörum voru nefndar ástæður þess að nemendum sé heimilt að taka síma með sér í skólann og kom þar til dæmis fram að nemendur séu í sumum tilfellum með strætókort og greiðslukort í símunum og þá liggi ákveðin öryggissjónarmið þar að baki fyrir nemendur á leið í og úr skóla.

Í einhverjum skólum eru símar alveg bannaðir en svo voru einhver dæmi um það að einn dagur í viku væri símalaus eða jafnvel einn mánuður.

Reglur um farsímanotkun barna í nær öllum grunn­skólum

Þá segir í tilkynningu umboðsmanns að nokkur samhljómur hafi verið í svörum um mikilvægi þess að reglur um símanotkun á skólatíma séu samdar í samráði við starfsfólk, nemendur og foreldra.

„Niðurstöður könnunarinnar bera það með sér að nær allir grunnskólar hafi sett reglur um notkun farsíma og er það von umboðsmanns barna að nemendur taki ávallt þátt í því að endurskoða og semja slíkar reglur í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Enda er það réttur barna að vera höfð með í ráðum og skylda stjórnvalda að veita þeim raunveruleg tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif,“ segir í tilkynningunni og að nemendaráð geti gegnt mikilvægu hlutverki í að upplýsa nemendur og hvetja þá til þess að taka þátt í samráði og samtali við stjórnendur og starfsfólk skóla, samkvæmt visir.

oli
Author: oli

Vefstjóri