Refsing eða bætur fyrir að umgangast ekki barn
Tálmun, þegar lögheimilisforeldri kemur í veg fyrir samskipti barns við hitt foreldrið vegna deilna í kjölfar skilnaðar, er skilgreint sem vanræksla á barni. Komið er fram frumvarp sem á að gera tálmun refsiverða með allt að fimm ára fangelsisvist.
Kæmi til tals að líta á málin sem brot gegn barni
Hins vegar er ekkert um það í lögum hvernig taka skuli á málum þar sem annað foreldrið neitar að umgangast barn sitt. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins um tálmanir, bendir á að það sé þó í lögum að báðir foreldrar bera ríka skyldu gagnvart barni sínu.
„Og þá kemur alveg til tals að líta á það sem brot líka, að fólk sinni ekki þessum skyldum sínum eins og öðrum skyldum,” segir Brynjar. „En það er auðvitað praktískt vandamál í kring um það, því ef einhver vill ekki sinna þessum skyldum sínum, þá er mjög líklegt að það verði ekki til góðs fyrir barnið að vera hjá viðkomandi.”
Foreldri greiði miskabætur vegna vanrækslu
Helga Vala Helgadóttir lögmaður segir löggjafann hafa ákveðið að barninu sé enginn greiði gerður með því að foreldri sé þvingað til samvista.
„Það er svona spurning hvort að það eigi þá ekki bara að hafa margfalt meðlag í staðinn eða eitthvað svoleiðis. Því það er einstaka manneskja sem skilur betur peninga en tilfinningar og mundi kannski frekar skilja það ef það þyrfti bara að borga meira heldur en að skilja það að þú ert að valda barninu þínu miklu tjóni með þessari höfnun sem þú sýnir því,” segir Helga Vala. „Þér verður bara gert að borga miskabætur því þú ert að vanrækja skyldur þínar sem foreldri.”
Gera foreldri grein fyrir afleiðingum vanrækslunnar
Heimir Hilmarsson, formaður Félags um foreldrajafnrétti, segir kerfið máttlaust í þessum málum.
„Það er ekki verið að koma með stuðningsúrræði eins og ef um lögheimilisforeldri væri að ræða sem væri að vanrækja barnið sitt. En við þyrftum að koma á að þessi foreldrar væru kallaðir í ráðgjöf,” segir Heimir. „Það væri talað við þá, þeim væri gerð grein fyrir afleiðingum þess á barn að foreldri vanræki börn með þessum hætti og þeim verði veittur stuðningur til þess að koma á umgengni.”, samkvæmt ruv.
{loadposition nánar fréttir}