Nýtt Reykjavíkurmódel í leikskólamálum: Tekjutengd gjaldskrá og hvatar til að stytta dvalartíma

Nýtt Reykjavíkurmódel í leikskólamálum: Tekjutengd gjaldskrá og hvatar til að stytta dvalartíma

Borgarráð hefur samþykkt að setja tillögur að umbótum á leikskólastarfi í samráðsferli. Í þeim felst meðal annars tillaga að breyttri gjaldskrá og fjárhagslegum hvötum til að foreldrar nýti einungis þá dvalartíma sem þeir þurfa.

Tillögur stýrihóps að umbótum á náms- og starfsumhverfi leikskóla í Reykjavíkurborg voru lagðar fyrir í borgarráði í morgun sem samþykkti að setja þær í samráðsferli. Breytingarnar lúta einkum að skipulagi leikskóladagsins, dvalartíma barna og gjaldskrá leikskóla. 

Breytingarnar eru ekki ósvipaðar þeim sem komu fram í Kópavogsmódelinu svokallaða fyrir tveimur árum. Verði þær samþykktar taka þær gildi um áramótin.

Lögð er til ný tekjutengd gjaldskrá með hvötum til að hafa dvalartíma barna í hverri viku 38 tíma eða skemmri auk þess sem innheimt verður sérstakt gjald fyrir virka daga á milli jóla og nýárs, í dymbilviku og í haust- og vetrarfríum grunnskóla.

Gjaldskráin tekur mið af tekjum foreldra og aðstæðum þeirra. Almennt lækkar gjaldið hjá foreldrum í lægsta tekjuhópnum en hækkar hjá þeim sem eru með hærri tekjur.

Samkvæmt drögum er markmið tillagna að standa vörð um faglegt leikskólastarf og tryggja stöðugleika fyrir foreldra, börn og starfsfólk.

Samráðsgátt verður opnuð 15. október þar sem hægt verður að senda inn umsögn. Samráðsgáttin verður opin til 29. október.

Rukkað fyrir „skráningardaga“

Sú breyting verður gerð að skráning fyrir alla skráningardaga mun fara fram í september ár hvert en ekki með mánaðarfyrirvara eins og nú er.

Hvað eru skráningardagar?

Skráningardagar eru dagar þar sem foreldrar þurfa sérstaklega að skrá börn sín í leikskóla, þar sem gert er ráð fyrir að þeir sem geti haldi börnum sínum heima. Það eru:

  • Allir dagar milli jóla og nýárs.
  • Þrjá daga í dymbilviku í aðdraganda páska.
  • Alla daga í vetrarleyfum grunnskóla, þrjá á haustönn og tvo á vorönn.

4 þúsund krónur verða innheimtar fyrir hvern skráningardag sem nýttur er. Séu skráningardagarnir ekki nýttir fellur námsgjald fyrir maí niður. Gert er ráð fyrir að mannaflaþörf verði minni á skráningardögum.

Leikskólar verða áfram opnir frá kl. 7:30 til 16:30 og eiga breytingarnar að tryggja hámarksmönnun leikskólanna í 38 stundir frá kl. 8 til 16 mánudaga til fimmtudaga og frá kl. 8 til 14 á föstudögum. Á öðrum tímum er gert ráð fyrir að mannaflaþörf verði minni.

Börn sem fara fyrr heim á föstudögum fá 25% afslátt

Þá tekur gjaldskrá leikskólagjalda einnig breytingum og mun héðan í frá miðast við heildardvalartíma barna á leikskóla á viku. Grunngjald miðast við 38 klukkustundir á viku og verður 16 þúsund krónur.

Borgin hyggst einnig innleiða fjárhagslega hvata fyrir foreldra til að nýta einungis þær dvalarstundir sem börn þeirra þurfa.

Núverandi gjaldskrá leikskóla Reykjavíkur skiptist í tvo flokka. Flokk fyrir hjón og sambúðarfólk og afsláttarflokk fyrir einstæða foreldra, námsmenn, öryrkja og starfsfólk leikskóla Reykjavíkur.

Hvernig hefur þetta áhrif á fjölskyldur?

Nýja gjaldskráin tekur mið af tekjum fólks og heildarstundum barna á leikskólanum. Tekið verður tillit til tekna foreldra undir ákveðnum tekjumörkum.

Hér að neðan eru þrjú dæmi um hvernig breytingarnar myndu hafa áhrif á barnafjölskyldur en nánar má lesa um nýju gjaldskrána á vef Reykjavíkurborgar.

Starfsmenn leikskóla Reykjavíkur munu fá 40% afslátt af námsgjaldi og systkinaafsláttur helst óbreyttur og verður áfram 100%. Ef barn er ekki skráð eftir klukkan 14 á föstudögum er veittur 25% afsláttur af leikskólagjöldum, samkvæmt RUV.

 

oli
Author: oli

Vefstjóri