Leikskólagjöld í Kópavogi fylgja verðbólgutölum

Leikskólagjöld í Kópavogi fylgja verðbólgutölum

Leikskólagjöld hækka um mánaðarmótin í Kópavogi og geta tekið breytingum ársfjórðungslega. Gjaldskráin er tengd þróun vísistölu.

Kópavogsbær hækkar gjaldskrá sína um mánaðarmótin, en bærinn hefur ákveðið að beintengja hækkanir við þróun vísitölu. Bæjarstjóri segir það nákvæmari leið til þess að endurheimta kostnað, í stað þess að áætla verðþróun við upphaf árs, og það gagnist neytendum að hennar mati.

Leikskólagjöld hækka um tæpt prósent

Kópavogsbær hækkar leikskólagjöld um 0,9 prósent fyrsta október og eins munu fæðisgjöld hækka um 0,6 prósent. Er þetta hluti af nýrri nálgun Kópavogsbæjar til þess að breyta gjaldskrám með reglulegum hætti í samræmi við þróun viðmiðunarvísitölu. Á mannamáli þýðir það að gjaldskrár breytast í samræmi við verðbólgutölur.

„Okkur fannst eðlilegra og sanngjarnara, að í stað þess að ákveða í upphafi árs hvernig gjaldskráin eigi að breytast yfir árið, og í raun giska á hvernig verðlagshækkanir yrðu, þá væri farsælla að vísitölutengja gjaldskrána við raunkostnaðarþróun,“ útskýrir Ásdís Krisjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Segir tenginguna betri fyrir bæjarbúa

Ásdís telur að þessi leið sé að auki hagkvæmari fyrir bæjarbúa.

„Því í stað þess að hækka gjaldskrána í eitt skipti, í upphafi árs, þá erum við að hækka tvisvar til fjórum sinnum á ári, en þá eru þetta sannarlega minni hækkanir heldur en við erum að sjá í upphafi hvers árs, þegar sveitarfélög eru að gefa sér ákveðnar forsendur um þróun verðlags,“ segir Ásdís.

Endurspeglar raunkostnað

Gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga hafa oft verið umdeildar vegna áhrifa þeirra á verðbólgu, Ásdís telur þessa nálgun í það minnsta sýna fram á raunverulegan kostnað þjónustu sveitarfélaga.

„Já, þetta er að mínu mati að endurspegla nákvæmlega þá raunkostnaðarþróun sem verður í þjónustugjöldum sveitarfélaga,“ segir Ásdís að lokum, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri