Hækka hámarksgreiðslur um hundrað þúsund krónur
Framlag til Fæðingarorlofssjóðs mun hækka um 1,8 milljarð króna á komandi fjárlagaári. Er það gert vegna ákvæðis í kjarasamningum frá því í fyrra um að hámarksgreiðslur úr sjóðnum eigi að hækka úr átta hundruð þúsund krónum í níu hundruð þúsund.
Í fjárlagafrumvarpinu segir að einnig sé verið að taka tillit til spár Hagstofu Íslands um fæðingar barna og þróun meðaltekna.
Þar segir einnig að hækkunin muni bæta afkomu foreldra í fæðingarorlofi. Konur taki að meðaltali lengra orlof en karlar og hækkunin sé því einnig talin líkleg til að stuðla að aukinni nýtingu feðra á réttinum til fæðingarorlofs og jafnari skiptingu á umönnun barna.
Enn fremur segir í frumvarpinu að almennt megi telja að aukin framlög til heilbrigðismála stuðli að jafnrétti. Konur séu líklegri en karlar til að búa við heilsubrest og nota því bæði heilbrigðisþjónustu og lyf meira en karlar, samkvæmt visir.
