dagmamma
|

Börn sem stama

dagmammaInngangur:

Mörg okkar hafa á einhvern hátt tengst fólki sem stamar, annaðhvort af afspurn eða þá að við þekkjum einhvern. Allir eru sammála um að stam er erfið taltruflun sem enginn vill vera með. Það er því engin furða þótt margir foreldrar hrökkvi illilega við ef þeir verða varir við að barnið þeirra tekur upp á því að stama. Eðlilega vilja foreldrar geta leitað sér hjálpar svo fljótt sem auðið er, ef vera skyldi að það kæmi í veg fyrir langvarandi stam.

Hér á eftir verður fjallað um eftirfarandi:

  1. Hvað er vitað um stam í dag?
  2. Af hverju byrjar barn að stama?
  3. Hvað stama margir? Hvað er til ráða?
  4. Hvað á að segja við samferðafólkið?
  5. Hvert skal leita til að fá ráðgjöf og meðferð?

Hvað er stam?

Stam er truflun á eðlilegri talleikni og er tengt starfsemi heilans. Þessi truflun getur verið í formi:
a. endurtekningu hljóða eða orða, s.s. “Vi -vi -vi -vi við mamma fó -fó-fó- fórum í bíó í gær”
b. lengingu hljóða, s.s. “S——–iggi er f—–arinn heim”
c. festingu eða lokunar fyrir lofststrauminn sem lýsir sér í mikilli spennu í talfærunum. Festingin getur verið í raddböndum – tungu eða vörum. Festingu geta fylgt aukahreyfingar, s.s. það að blikka eða loka augum, stappa í gólfið eða grettur í andliti.
Stundum er stamið það alvarlegt, og hindrar svo tjáningu barnsins, að það verður alveg miður sín og gefst jafnvel upp á að tala. Önnur börn stama það létt og óþvingað að stamið hindrar lítið tal þeirra. Í sumum tilfellum hækka börn raddtíðnina (tón raddarinnar) þegar þau stama.
Stam byrjar langoftast hjá börnum á aldrinum tveggja til fjögurra ára en hverfur aftur hjá mörgum eftir mismunandi langan tíma. Mjög erfitt er að spá fyrir um hvort stam hjá börnum á þessum aldri verði varanlegt eða ekki. Hins vegar, ef stam hefur verið viðvarandi í nokkurn tíma, þá minnka líkur á að það hætti af sjáfu sér. Þegar börnin eldast og viðhalda staminu getur vandamálið kallað fram “talfælni”, lægra sjálfsmat, og óöryggi í félagslegum samskiptum.

Af hverju byrjar barn að stama?

Orsakir stams eru ókunnar. Margar kenningar eru til þar sem tilgreindir eru þættir sem hugsanlega gætu orsakað stam. Engin ein kenning hefur náð almennri hylli en fagfólk er sammála um að stam orsakist líklega af mörgum þáttum. Það gerir viðfangsefnið mjög flókið. Það er ljóst að viðvarandi stam getur ráðist af samspili milli ýmissa líkamlegra þátta sem sumir hverjir hafa erfst. Einnig virðast sál- og félagslegar aðstæður geta ráðið nokkru sem og málumhverfið sem barnið lifir í. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að erfðir geta ráðið miklu. Talað er um að stam liggi frekar í sumum ættum en öðrum.
Það er alls ekki hægt að reikna með því að barn foreldris sem stamar eða hefur stamað muni gera það líka. Það eru greinilega svo margir þættir – bæði erfðafræðilegir og í umhverfi barnsins, sem ráða því hvort stam sækir á tjáningu barnsins eða ekki.

Hvað stama margir:

Mun fleiri strákar en stelpur stama. Rannsóknir sýna að hlutfall kynjanna er allt frá 2:1 upp í 6:1 eftir því hvaða aldurshópur á í hlut. Munurinn er minnstur hjá yngsta aldurshópnum þar sem nánast sami fjöldi beggja kynja byrjar að stama. Reikna má með að 0,7% – 1% fullorðinna stami, eða 2100 – 3000 fullorðnir Íslendingar.

Eðlilegt hökt eða stam

Mörg börn hökta þegar þau tala án þess að um eiginlegt stam sé að ræða. Gera þarf skýran greinarmun á stami og eðlilegu hökti. Eðlilegt hökt getur komið fram þegar börn eiga erfitt með að skipuleggja það sem þau ætla að segja eða eiga í erfiðleikum með að kalla fram réttu orðin. Stam lýsir sér hins vegar sem spenna í tali og talflæðið er ekki eðlilegt.
Talað er um að stam sé orðið viðvarandi vandamál ef barnið hefur stamað í hálft til eitt ár og stamið það greinilegt og mikið að það hefti tjáningu barnsins. Þetta þarf þó alls ekki að vera einhlítt því mörg dæmi eru um að börn hætti stami þótt þau hafi stamað í mum lengri tíma.

Hvað er til ráða?

Það er reynsla margra talmeinafræðinga af vinnu með forskólabörn sem stama að þau verði mjög fljótt meðvituð um stamið og fyllist spennu. Áður fyrr var foreldrum sagt að hafa ekki áhyggjur og hætta að hugsa um stamið, láta sem þeir heyrðu það ekki og alls ekki tala um stamið við barnið. Ekki var boðið upp á meðferð vegna stams nema fyrir fullorðna. Foreldrar halda oft að barnið sé ómeðvitað um þetta vegna þess að það talar aldrei um það. En reynslan sýnir að þau vita alveg hvað er í gangi. Þess vegna er nauðsynlegt að foreldrar og starfsfólk leikskólanna tali um stamið við barnið á eðlilegan og óþvingaðan hátt rétt eins og maður talar um gleraugun hans Sigga af því hann sér nú ekki nógu vel, eða heyrnartækin hennar Möggu sem heyrir alls ekki nógu vel án þeirra. Það er nú ekki svo ýkja langt síðan að ekki mátti tala um þessa hluti.
Margir foreldrar kenna sér um þegar barnið þeirra tekur upp á því að stama. Það er örugglega ekki sök foreldranna – en foreldrar geta haft mikil áhrif á það hvernig stamið þróast. Þess vegna er brýnt að þeir viti hvernig þeir eiga að bera sig að.

a) Eins og fyrr var nefnt er erfitt að spá fyrir um það hvort stam hjá 2ja – 4ra ára barni verði varanlegt eða ekki. Ekki er hægt að ganga út frá því að hægt sé að lækna stamið. Veikleikinn er fyrir hendi og stamið getur gosið upp við erfiðar aðstæður þótt það liggi niðri inn á milli.

b) Öll spenna í samskiptum og togstreita – ómarkviss skilaboð og snöggar ákvarðanir eru ekki æskilegar. Magnið ekki upp spennu og væntingar í kringum tímamót s.s. afmæli, jól, ferðalög eða upphaf skólagöngu.

c) Fáið barnið til bíða ef einhver annar er að tala – það er ekki leyfilegt að ryðjast inn í tal annarra – ekki heldur þótt barn stami – það verður að bíða með að komast að eins og aðrir.

d) Sýnið barninu hins vegar að það er nægur tími til að spjalla þegar röðin er komin að því. Barnið hefur þörf á að vita að það er nægur tími þegar það þarf að tjá sig – líka þótt stamið tefji tjáninguna.

e) Sýnið áhuga á því sem barnið er að segja frekar en að vera upptekin af staminu.

f) Láttu vera að leggja of margar spurningar fyrir barnið. Fullorðnir tala stundum við börn eingöngu með því að leggja fyrir þau spurningar: “Hvað hefur þú verið að gera í dag?” eða “Hvað gerðuð þið í leikskólanum í dag?” Það getur verið erfitt fyrir lítil börn að svara svona “víðum” spurningum. Margt gerist á einum degi í lífi leikskólabarns. Í svona “samtölum” er það spyrillinn sem stýrir samtalinu og því ekki víst að barnið hafi áhuga á að tala nákvæmlega um það sem spurt er um. Það er miklu léttara og skemmtilegra ef barnið getur sagt frá því sem það hefur mestan áhuga á hverju sinni.

g) Betra er að þið foreldrar talið um ykkur sjálf. Hvað þið voruð að gera. Segið frá ykkar upplifunum og þá eru miklar líkur á að barnið vilji segja frá því sem hefur hent það yfir daginn.

h) Haldið augnsambandi. Þegar við tölum saman horfum við hvort á annað. Á þann hátt fylgjumst við með viðbrögðum þess sem við tölum við. Það er áríðandi að barnið fái jákvæð viðbrögð frá þeim sem það talar við hverju sinni. Oft lítur fólk undan þegar barn byrjar að stama vegna þess að því finnst óþægilegt að horfa á barnið stama og heldur jafnvel að það hjálpi barninu ef ekki er horft á það. En þetta er þveröfugt.

i) Talið um stamið við barnið beint. Virðið talsmáta barnsins og leyfið því að finna að þið eruð meðvituð um talvandann. Það er miklu auðveldara fyrir barnið að rætt sé um vandann á óþvingaðan máta eins og t.d. “ég heyri að þetta er erfitt í dag” eða “mér finnst þú stama öðru vísi núna en í morgun, er það léttara svona?”

j) Verið góðar málfyrirmyndir. Talið hægt og notið einfaldar setningar. Hinn fullorðni er alltaf málfyrirmynd barnsins!!!

Hvað á að segja við samferðafólkið?

Það er áríðandi að barnið heyri hvernig talað er um stam þess við samferðafólkið t.d. innan stórfjölskyldu eða við foreldra bekkjarfélaga. Það býður upp á aukið öryggi að vita hvað aðrir vita. Þess vegna skuluð þið alltaf tala eðlilega og jákvætt um stamið. Ráðleggið öðrum hvernig þeir eiga að bera sig að. Segið að barnið stami og það geti komið fyrir að það eigi erfitt með að tjá sig. Þess vegna sé æskilegt að hlusta vel á það sem barnið segir og gefa því tíma til að ljúka við setningarnar, og endilega horfa á það á meðan það tali. Ókunnugir eiga ekki að hika við að spyrja foreldrana ef þeir eru í vafa um hvernig þeir eiga að bera sig að í tjáskiptum við barnið.

Hvert skal leita til að fá ráðgjöf og meðferð?

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands greinir stam og vísar í meðferð. Til þess að fá þjónustu þar þarf tilvísun læknis eða talmeinafræðings.
Sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar starfa á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og nokkrum stöðum á landsbyggðinni.
Skólaskrifstofur nokkurra sveitarfélaga hafa nokkra starfandi talkennara eða talmeinafræðinga sem þjónusta leikskóla og skóla.
MÁLBJÖRG (www.stam.is) er félag stamara og aðstandenda stamara og allra þeirra er áhuga hafa á stami.
Tryggingarstofnun ríkisins (www.tr.is) greiðir að hluta til fyrir meðferð vegna stams. Sú greiðsla er þó breytileg eftir aldri þess sem þarf á talþjálfun að halda vegna stams.
Meðferð vegna stams er í flestum tilfellum langtímaverkefni sem krefst þess að vel sé vandað til verka eigi að koma í veg fyrir að stam verði að varanlegri tjáningarfötlun hjá barninu.

Friðrik Rúnar Guðmundsson, talmeina- og heyrnarfræðingur
Jóhanna Einarsdóttir, talmeinafræðingur

Heimildir: Heyrnar og talmeinastöð Íslands

oli
Author: oli

Vefstjóri