Bannað að heita Libya
Mannanafnanefnd hefur samþykkt fimm ný nöfn, en hafnað eiginnafninu Libya þar sem það þykir ekki samræmast almennum ritreglum íslenskunnar.
Mannanafnanefnd hefur hafnað eiginnafninu Libya. Nafnið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar í síðustu viku, þar sem úrskurðað var að nafnið er ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.
Þar segir að y sé ekki ritað fyrir framan a í ósamsettum orðum. Þá ber það enginn í Þjóðskrá og því telur nefndin ekki vera komin hefð fyrir nafninu.
Á öðrum fundum Mannanafnanefndar í síðustu viku voru fimm ný nöfn hins vegar samþykkt. Það eru eiginnöfnin Flati, Láki og Jones. Þá voru nöfnin Arianna, sem ritháttarafbrigði nafnsins Aríanna, og Kaya, sem ritháttarafbrigði nafnsins Kaja, einnig samþykkt.
Fyrr í mánuðinum tók Mannanafnanefnd fyrir tólf nöfn, þar sem þremur nöfnum var hafnað, samkvæmt RUV.