Æ fleiri börn þurfa meðferð vegna stoðkerfisvandamála
Kyrrseta og notkun tölva og farsíma veldur höfuðverk, svefntruflunum og öðrum vandamálum hjá börnum og unglingum, segir Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari. Hann segir börnin ekki ná að þroska stoðkerfi líkamans.
Börnum og unglingum sem koma til sjúkraþjálfara með stoðkerfisvandamál fjölgar verulega. Hluti vandamálanna er mikil kyrrseta og notkun tölva, spjaldtölva og farsíma, að sögn Gauta Grétarssonar sjúkraþjálfara.
“Ég hef séð tveggja til þriggja ára krakka með spjaldtölvu og farsíma. Þau venja sig á að vera með hálsinn langt fram fyrir bolinn þar sem þyngdarpunkturinn er. Sitji þau lengi í þessari stöðu veldur þetta höfuðverk, svefntruflunum og alls konar öðrum vandamálum. Það má búast við talsverðum stoðkerfisvandamálum hjá þessum börnum eftir 10 til 15 ár verði ekki gripið í taumana,” segir Gauti og bætir því við að foreldrar verði að setja reglur um tölvunotkun barnanna og aga sjálfa sig.
“Foreldrar eru að kaupa sér tíma með því að rétta börnunum spjaldtölvurnar. Krakkarnir læra þetta af foreldrunum sem eru sjálfir alltaf í tölvunum. Við erum að fá til okkar fólk sem situr við tölvu átta klukkustundir á dag og er svo með tölvu í fanginu heima í kannski fjórar klukkustundir. Þetta eru kallaðar fartölvur en eru í rauninni fangtölvur. Foreldrar þurfa að leika við börnin í staðinn, fara með þeim út og kenna þeim leiki.”
Gauti tekur það fram að vissulega nái börn einbeitingu og færni í fínhreyfingum við tölvunotkun. “Þau fá hins vegar eingöngu færni í þessum fínhreyfingum. Þau nota mikið bara aðra höndina og hin er farþegi. Höfuðið er fyrir framan bolinn og mikið í hangandi stöðu. Við sem eru eldri náðum færni í fínhreyfingum og einbeitingu með því að vera í til dæmis dúkkulísuleik og smíði flugvélamódela. Við notuðum báðar hendurnar við þessa leiki og við fórum ekki með þetta út í bíl. Við vorum ekki í þessu allan daginn heldur vorum við mikið í leikjum úti.”
Að sögn Gauta missa börn sem eru mikið í tölvum færni í grófhreyfingum. “Þau ná ekki að þroska stoðkerfið og fá heldur ekki útrás fyrir spennu og streitu með því að þjálfa grófhreyfingar með útileikjum og íþróttaiðkun. Þeim eru bara gefin verkjalyf þegar þau verða óþekk og óvær og sofa illa vegna vegna verkja í stoðkerfinu. Foreldrar átta sig kannski ekki á því hvers vegna krakkarnir eru með höfuðverk og hvernig eigi að leysa vandann. Unglingarnir sem eru að koma til okkar í sjúkraþjálfun núna eru þau sem byrjuðu að sitja við tölvur fyrir nokkrum árum. Það verður að takmarka þann tíma sem ung börn eru í tölvum.”
Heimildir: Visir