658 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík
658 börn 12 mánaða og eldri voru á biðlista eftir leikskólaplássi í leikskóla sem reknir eru af Reykjavíkurborg þann 1. september síðastliðinn. Þá eru 67 börn til viðbótar að bíða eftir flutningi úr sjálfstætt starfandi leikskóla.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni. Þar segir að áætlað sé að um 180-200 börn 12 mánaða og eldri frá 1. september séu ekki með dagvistun. Þar er að stórum hluta um að ræða eldri börn sem nýkomin eru á biðlista eftir leikskóla í Reykjavík.
Þar segir ennfremur að aðlögun í bæði borgarrekna og sjálfstætt starfandi leikskóla sé í fullum gangi. Börnin byrji í aðlögun eftir skipulagi, oft elstu börnin fyrst og svo eru börnin tekin inn eftir aldri og eftir því sem nýráðið starfsfólk hefur störf.
2021 árgangurinn stór
Meðal þeirra barna sem eru á biðlistanum eru um 120 börn sem eiga eftir að fá úthlutað plássi hjá sjálfsstætt starfandi leikskóla í borginni. Börn sem eru að fara að hefja vistun í sjálfstætt starfandi leikskólum en eru á biðlista eftir borgarreknum leikskólum detta ekki út af biðlistanum fyrr en vistun hefst, að því er segir í tilkynningu borgarinnar.
Þá séu í dag 375 í vist hjá dagforeldrum, og flest þeirra eru á biðlista eftir leikskólaplássi. Alltaf sé ákveðin keðjuverkun í vistunarmálum barna á leikskólaaldri en þegar pláss bjóðist í borgarreknum leikskóla losni gjarnan pláss á móti hjá sjálfsstætt starfandi skólum og hjá dagforeldrum sem bjóðist þá öðrum börnum.
Mikil hreyfing sé auk þess á listum þegar fjölskyldur flytji á milli bæjarfélaga. Bætast muni við pláss hjá borgarreknum jafnt sem sjálfstætt starfandi skólum þegar viðgerðum og endurbótum á húsnæði lýkur og þegar nýtt skólahúsnæði er opnað.
Segir í tilkynningunni að vert sé að hafa í huga að 2021 árgangurinn sé sérlega stór árgangur, einungis 2009 árgangurinn sé stærri. Þá sé 2017 árgangurinn sem hóf skólagöngu í 1. bekk í haust minnsti árgangurinn í grunnskólum. Stærðarmunur þeirra sem voru að fara í skóla og þeirra sem séu að koma inn sé tæplega 300 börn, samkvæmt visir.