Brjóstabörn gráta meira en pelabörn
|

Brjóstabörn gráta meira en pelabörn

Brjóstabörn gráta meira en pelabörnBrjóstabörn láta meira í sér heyra en pelabörn. Það er þó ekkert til að óttast, heldur eðlilegt og yfirleitt betra til lengri tíma litið. Ástæðan fyrir því að pelabörn gráta minna getur verið sú að þau eru ofalin. Slíkt getur skapað vandamál síðar á ævinni.

Brjóstabörn gráta meira en pelabörn að því er fram kemur í niðurstöðum rannsóknar The Medical Research Council í Bretlandi sem greint var frá fyrir skemmstu. Rannsakendurnir segja grát og óróleika ungabarna náttúrulegan og þó svo að auðveldara geti verið að hugga pelabörn þá sé brjóstamjólkin betri.

“Ef foreldrar og mjólkandi mæður myndu hafa raunhæfari hugmyndir um hvað eðlilegt er þegar kemur að ungbarnagráti væru meiri líkur á að brjóstagjöf yrði haldið áfram,” segja rannsakendur. Flestar breskar mæður reyna brjóstagjöf en á nokkrum mánuðum lækkar tíðnin niður í þriðjung. Breska heilbrigðismálastofnunin mælir hins vegar með því að börn fái eingöngu brjóstamjólk til sex mánaða aldurs.

Algengasta ástæðan sem konur gefa fyrir því að gefast upp á brjóstagjöf er sú að hún fullnægi ekki barninu. Þetta segja rannsakendur endurspegla hugmyndir foreldra um að óróleiki sé merki um hungur. “Börnin geta allt eins verið að tjá þreytu eða annað sem amar að þeim. Ástæðan fyrir því að pelabörn láta síður í sér heyra getur líka verið sú að þau séu hreinlega ofalin og standi á blístri. Um leið skapast hætta á að þau þyngist of hratt og meiri líkur eru á offitu síðar á ævinni.” Rannsakendurnir segja niðurstöðurnar ríma við rannsóknir á matarvenjum fólks á öðrum æviskeiðum. “Fólk borðar sér til huggunar en ekki endilega vegna svengdar.”

Rannsókn bresku vísindamannanna náði til 300 mæðra og voru þær beðnar um að lýsa skapgerð barna sinna. Þær voru jafnframt beðnar um að greina frá því hvort þau fengju pela eða brjóst. 137 börn voru eingöngu á brjósti, 88 fengu eingöngu pela og 91 fékk bæði pela og brjósta mjólk. Brjóstabörnin voru sögð erfiðari í skapi og létu meira í sér heyra.

Að sögn rannsakenda finnst breskum mæðrum stressandi að gefa brjóst í samfélagi þar sem pelinn sækir sífellt meira á og þykir jafnvel sjálfsagðari en brjóstagjöf. Þær vilja geta huggað börnin sín jafn fljótt og hinar en til lengri tíma litið sé það ekki endilega betra. Þeir segja að áhugavert væri að bera niðurstöðurnar saman við upplifun mæðra í löndum þar sem brjóstagjöf er normið. “Við verðum vör við það að um leið og mæður og börn ná góðum tökum á brjóstagjöfinni gengur hún glimrandi vel.”

Heimildir: vísir.

oli
Author: oli

Vefstjóri