Best að eignast börn fyrir 35 ára
Ófrjósemi Breski prófessorinn Mary Herbert hefur vakið mikla athygli í heimalandinu eftir að hún hvatti konur til að huga að barnsfæðingum fyrir 35 ára aldurinn. Helmingur nýfæddra barna í Bretlandi á móður sem er komin yfir þrítugt.
Ebba Margrét Magnúsdóttir, sérfræðingur á Kvennadeild Landspítala, segir að þessi tilhneiging sé einnig hér á landi og reyndar um alla Evrópu. “Við höfum verið að upplifa þetta hér. Konur eru uppteknar við að mennta sig og huga að metnaði í starfi en barnsfæðingar hafa þurft að bíða,” segir hún. “Meðganga og fæðing gengur betur hjá yngri konum og þess vegna er það ákjósanlegra að koma með fyrsta barn fyrir 35 ára aldur. Frjósemin minnkar auk þess með aldrinum og líkur á litningagöllum aukast, auk þess sem meiri hætta er á meðgöngukvillum á borð við háþrýsting og sykursýki,” upplýsir Ebba.
“Við höfum reyndar góða tækni til að fylgjast með þessu eins og fósturgreiningar, hnakkamælingar og legvatnsstungur. Hins vegar er það staðreynd að ef kona er með einhvers konar heilsuvandamál, háan blóðþrýsting eða hún er of þung, verður meðgangan erfiðari eftir því sem hún er eldri,” segir Ebba.
Eiga börn yfir fimmtugt
Því eldri sem konan er, þeim mun meiri hætta er á ófrjósemi. “Ófrjósemi eykst með aldrinum. Konur hafa engu að síður verið að eiga börn fram yfir fimmtugt. Það er orðið nokkuð algengt að konur gangi með börn á aldrinum 40-45 ára og mér virðist vera aukning í barnsfæðingum á þeim aldri þótt ég sé ekki með
neinar tölur um það,” segir Ebba, en vel er fylgst með þeim konum á meðgöngu. Konur undir fertugu geta farið á breytingaskeið, það er ótímabær tíðahvörf, en Ebba segir það ekki algengt.
Þegar Ebba er spurð hvort hún hvetji konur til að eiga börnin yngri, svarar hún: “Ég held að það sé mikilvægt fyrir fólk að gera ráð fyrir barneignum í lífi sínu. Ef konur vilja eiga tvö börn eða fleiri er ekki gott að byrja seint. Það gengur ekki alltaf að verða barnshafandi þegar fólk óskar þess og ófrjósemi tekur mjög á fólk. Þegar konur eru orðnar 35 ára hefst líka baráttan við klukkuna.”
Aukin hætta
Mary Herbert, sem er líffræðingur, segir að það sé nauðsynlegt að upplýsa konur um þá áhættu sem þær taka með því að seinka barneignum. “Starfsferillinn á ekki að vera afsökun,” segir hún. “Ég myndi að minnsta kosti hafa áhyggjur af dóttur minni ef hún væri ekki komin með barn 35 ára. Konur þurfa að eiga börn áður en klukkan slær 12,” segir Mary og bætir við að ófrjósemi aukist mikið með aldrinum. Fæðingar kvenna sem eru hátt á fertugsaldri hafa þrefaldast í Bretlandi á undanförnum árum. “Á þeim aldri er hættan meiri á að börn fæðist andvana eða með litningagalla eins og Downs-heilkenni,” segir Mary.
Heimildir: visir