Yngstu börnin fengið pláss í Garðabæ og Mosfellsbæ
Það er best að búa í Garðabæ eða Mosfellsbæ á höfuðborgarsvæðinu, ef þú ert að bíða eftir leikskólaplássi. Yngstu börnin sem fengu leikskólapláss næsta haust verða 12 mánaða þegar skólaárið hefst. Úthlutun stendur enn yfir hjá Reykjavíkurborg.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa flest lokið úthlutun leikskólaplássa, að Reykjavíkurborg undanskilinni.
Yngstu börnin fengu pláss í Mosfellsbæ og Garðabæ. Þau fæddust í lok júlí 2023 og í ágúst sama ár.
Í Kópavogi hafa börn fædd í apríl 2023 og eldri fengið pláss – en aðeins ef foreldrar þeirra sóttu um fyrir 11. mars. Enn er verið að vinna úr umsóknum sem bárust eftir þann tíma.
Staðan er sú sama í Hafnarfirði, yngstu börnin eru fædd í apríl í fyrra og verða því 15-16 mánaða þegar skólaárið hefst.
Á Seltjarnarnesi eru það börn fædd í maí 2023 og eldri sem fá pláss í haust.
Innritun ekki lokið hjá borginni
Hjá Reykjavíkurborg virðist hins vegar allt vera enn í lausu lofti og ekki er hægt að veita neinar nákvæmar tölur eins og staðan er í dag.
Fréttastofa hefur þó heyrt í foreldrum barna sem eru fædd í október 2022 og eru nýbúin að fá staðfesta vist fyrir börn sín í leikskólum borgarinnar í haust. Samkvæmt svari frá Reykjavíkurborg stendur innritun enn yfir. Verið er að bíða eftir upplýsingum um börn sem fara í fimm ára deildir í sjálfstætt starfandi grunnskólum og eins barna sem þiggja pláss í einkareknum leikskólum. Úthlutanir hjá borginni eru mun umfangsmeiri en í hinum sveitarfélögunum.
Eftir fyrsta hluta úthlutunar leikskólaplássa í Reykjavík lauk föstudaginn 10. maí höfðu foreldrar rúmlega 1700 barna fengið boð og þegið vistun í borgarrekna leikskóla og þau því líklegast orðin fleiri núna, samkvæmt RUV.