Yfirhöfn geti dregið úr öryggi barnabílstóla

Yfirhöfn geti dregið úr öryggi barnabílstóla

Yfirhöfn geti dregið úr öryggi barnabílstóla

Umfjöllun Today þáttarins hjá NBC hefur vakið athygli og meðal annars verið deilt á samfélagsmiðlum hér á landi. Í þættinum var fylgst með árekstrarprófi þar sem dúkka í úlpu var fest í barnabílstól. Dúkkan sést þar renna úr úlpunni og losna frá bílstólnum. Herdís segir að umfjöllun í fjölmiðlum vestanhafs um málið hafi orðið til þess að umferðaröryggisaðilar í Þýskalandi fengu fjölda fyrirspurna. Þar hafi því verið ákveðið að láta reyna á þetta.

Herdís segir að dúkkurnar sem notaðar eru í slíkum prófum líki eftir börnum. „Brjósthol brúðanna er með tölvunema sem sendir boð í tölvu og segir hversu mikið höggið er og hversu mikið högg börn þola á hverju aldursstigi. Prófið sýndi að börn fengju meira högg ef þau voru í yfirhöfn og yfir leyfilegum mörkum, sem sýnir fram á möguleika á alvarlegum áverkum.“

Foreldrar gjarnir á að hafa beltin of laus
Athygli vekur þegar leiðbeiningar fyrir barnabílstóla eru skoðaðar að þar eru börn aldrei sýnd í yfirhöfnum. „Í leiðbeiningum frá framleiðendum er tekið sérstaklega fram að beltin eigi að falla þétt að barninu,“ segir Herdís. „Ef það er í þykkum fötum og svo yfirhöfn, þá er jafnvel þriggja til þriggja og hálfs sentimetra bil frá belti að barni. Ef harður árekstur verður þá skellur beltið miklu harðar á líkamann en það á að gera.“

Í umfjöllun Today þáttarins hjá NBC segir Miriam Manary, sem framkvæmir árekstrarpróf í Háskólanum í Michigan að foreldrar eigi að tryggja að bílbeltin séu það þétt upp að barni sínu að ekki sé hægt að láta axarólarnar snertast á brjóstkassa barnsins. Herdís segir að það sé tilhneiging hjá foreldrum að hafa bílbeltin of laus á börnum sínum. „Ég kenni á foreldranámskeiðum og þangað mæta foreldrar með börn í þykkum fatnaði og jafnvel háglansandi sem rennur auðveldlega til.“ Þá renni foreldrar oft niður göllum barna sinna í bílnum svo þeim verði ekki heitt. Það bjóði hættunni heim. „Það hefur gerst í Bandaríkjunum að ungbarn rann upp úr gallanum og barnabílstól sínum í árekstri, kastaðist út um gluggann og dó. Það hefur ekki gerst mér vitandi í Evrópu.“

Í umfjöllun NBC er sýnt hvernig hægt er að kanna hvort yfirhöfn barnsins sé of umfangsmikil. Fyrst er barnið spennt í bílstólinn í yfirhöfn, beltin þrengd þannig að þau falli þétt að barninu og það síðan losað úr stólnum. Barnið er þá tekið úr yfirhöfninni og spennt aftur í stólinn án þess að breyta stillingunum á beltinu. Ef hægt er að klípa böndin saman þá er yfirhöfnin of stór og barnið ekki öruggt í stólnum.

Óþarfi að vera kappklæddur í bíl
Tanja Fransen, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni í Glasgow í Montana-ríki Bandaríkjanna, hefur kennt öryggisnámskeið í meira en 15 ár. Hún segir í viðtali við Washington Post að það sé slæmt að ráðleggja foreldrum að spenna börn úlpulaus í bílsæti. Það geti skipt sköpum að vera vel klæddur ef ökumaður missir bíl sinn út af og missir meðvitund með illa búið barn í bílnum. „Ég er alltaf að segja það við fólk á námskeiðunum mínum að börnin eru alltof vel klædd í bílunum,“ segir Herdís. „Miðstöðvarnar eru það góðar að bíllinn er enga stund að hitna. Börnin verða óvær og gætu reynt að klæða sig úr sjálf án þess að foreldrarnir verði þess varir og jafnvel losað beltið.“ Frekar eigi að breiða teppi yfir barnið og setja á það húfu. „Þetta er ekki vandamál hér á landi. Flest börn eru í góðum flísfötum. Það er vel búið að börnum hér á landi og þau eru yfirleitt í góðum nærfatnaði næst líkamanum,“ segir Herdís. „Langflest börn eru í góðum fatnaði hér á landi.“

Herdís segir að sömu öryggisatriði eigi við um fullorðna. „Fólk er oft kappklætt í bílum sínum og getur þá stórslasað sig ef beltið situr ekki rétt. Það eru margir sem passa sig ekki á þessu.“ Breska blaðið Guardian fjallaði um árekstrarpróf fyrir rúmum fjórum árum þar sem sýnt var meðal annars fram á einmitt þetta, samkvæmt ruv.

{loadposition nánar fréttir}

oli
Author: oli

Vefstjóri