Viðræður um niðurgreiðslu hófust ekki fyrr en í apríl

Viðræður um niðurgreiðslu hófust ekki fyrr en í apríl

Viðræður um niðurgreiðslu hófust ekki fyrr en í apríl

Lög um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu voru samþykkt á Alþingi sumarið 2020 og áttu að taka gildi fyrsta janúar 2021.

„Ég hef fjármagnað þetta nú þegar, með hundrað milljónum, en það hefur ekki gengið vel að koma þeim peningum í lóg vegna þess að samningar hafa ekki gengið við sjálfstætt starfandi sálfræðinga,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í fréttum RÚV í gær.

Tryggvi Ingason, formaður Sálfræðingafélagsins, segir að málið strandi ekki hjá sálfræðingum. „Ekkert samtal átti sér stað við sálfræðinga frá hendi Sjúkratrygginga fyrr en það var send út auglýsing í lok apríl 2021 um fyrirtæki sem hefðu áhuga á að koma á samning. Við erum kannski að tala um tveggja mánaða ferli, inn í sumarmánuðina,“ segir Tryggvi. „Og þetta er flókið ferli.“

„En boltinn, hann er allavega ekki hjá sálfræðingum,“ segir Tryggvi.

Ekki öll sálfræðiþjónusta niðurgreidd
Tryggvi bendir á að ríkið ætli ekki að semja um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu almennt, heldur hafi Sjúkratryggingar auglýst eftir að semja við stofur sem myndu taka að sér þjónustuna. Það þýðir að sjúklingar geta ekki valið að leita til annarra sálfræðinga, nema með því að greiða fullt verð.

„Hugmyndin er að það séu samningsbundnir aðilar sem sjá um þessa þjónustu,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. „Það er verið að semja við ákveðna aðila, eins og í rauninni lög gera ráð fyrir, að það sé samningur um tiltekið magn þjónustu og svo framvegis.“

Hún segir nauðsynlegt að forgangsraða þeim fjármunum sem settir hafa verið í verkefnið. „Við erum að bíða eftir að fá upplýsingar frá Heilsugæslunni í Reykjavík um hvernig þau myndu vilja haga forgangsröðun,“ segir María. „Við erum með ákveðið fjármagn og það er auðvitað mikilvægt að forgangsraða þannig að þeir sem eru í brýnustu þörf fái helst þjónustuna.“

„Ekki áhugi á að gera þetta almennilega“
Gert er ráð fyrir að hundrað milljónum verði varið í verkefnið á ári. Tryggvi telur að það sé of lítið. „Hundrað milljónir er engan veginn nægjanlegt til þess að geta farið að niðurgreiða sálfræðiþjónustu að fullu,“ segir Tryggvi. „Ég held að væntingar almennings séu allt aðrar.“

„Mín upplifun er sú að það er ekki áhugi á að gera þetta almennilega,“ segir Tryggvi, samkvæmt RUV.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri