Útgjöld hækka um tugi þúsunda

Fjölskyldubílinn einn verður um tíu þúsund krónum dýrari í rekstri vegna hækkana á eldsneytissköttum.

 

Pyngja heimilanna þarf að takast á aukin útgjöld á næsta ári vegna fyrirhugaðra breytinga á skattkerfinu og hækkana á gjaldskrám sveitarfélagana.Meðal annars þurfa heimilin að standa straum af hækkunum á bensíni, olíu, áfengi, tóbaki og þá hækkar útvarpsgjaldið.
Sveitarfélögin hækka síðan flest leikskóla- og frístundagjöld og þá á sorphirðugjald að hækka í sumum sveitarfélgum.
En við hverju má meðalfjölskyldan búast árið 2012? Hverjar verða helstu skatta- og gjaldskrárhækkanir.

Lítrinn af eldsneyti hækkar um þrjár krónur og fimmtíu aura vegna skattabreytinga samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðareigenda.
Þessi skattahækkun eins og sér þýðir að eldsneytiskostnaður vegna fjölskyldubílsins hækkar um sex til tíu þúsund krónur á næsta ári.

Þá hækkar útvarpsgjaldið 2012 um 900 krónur á hvern skattgreiðanda yfir átján ára aldri.

Meðalheimilið eyddi 177 þúsund krónum á þessu ári í áfengi og tóbak samkvæmt könnun Hagstofunnar. Verði skattahækkunum á áfengi og tóbak velt að fullu út í verðlagið kostar sama magn að ári yfir 180 þúsund krónur.

Öll sveitarfélög sem fréttastofa hefur sett sig í samband við, grípa til einhverra gjaldskrárhækkana um áramótin. Flest þeirra hækka meðal annars leikskóla- og frístundagjöld. Útgjöld hjóna sem búa í Reykjavík og eiga eitt barn í leiksskóla og annað sem nýtir frístundaheimilin, hækka um tæpar fjögur þúsund krónur á mánuði eða 12 og hálft prósent. Ef þjónustan er nýtt í 10 mánuði á ári þýðir það að útgjöld fjölskyldunnar aukast um 40 þúsund krónur á ári
Þetta er ekki tæmandi listi, heldur er aðeins drepið á helstu hækkanir sem snerta margar fjölskyldur. Samanlagt myndu þessar hækkanir kosta fjölskylduna allt að 56 þúsund krónur á næsta ári.

Erfitt er að meta af nákvæmni hvaða áhrif þessar hækkanir samanteknar hafa á ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmát á þessu stigi en nýjasta spá Seðlabanki Íslands gerir þó ráð fyrir að kaupmáttur heimilanna aukist um tæpt prósent á næsta ári.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri