Til skoðunar að fleiri í bið geti sótt um niður­greiðslu

Til skoðunar að fleiri í bið geti sótt um niður­greiðslu

Alls hafa fimmtíu einstaklingar sótt um niðurgreiðslu til Reykjavíkurborgar vegna barna sem eru 18 mánaða eða eldri og eru enn hjá dagforeldrum. Opnað var fyrir umsóknir um niðurgreiðslur í síðustu viku. Skóla- og frístundasvið skoðar nú hvort hægt sé að veita fleirum niðurgreiðslu.

Niðurgreiðslan er tilkomin vegna þess að börnin ættu samkvæmt viðmiðum borgarinnar að vera komin inn á einhvern leikskóla borgarinnar. Leikskólar eru töluvert ódýrari en að vera hjá dagforeldrum. Foreldrar og forráðamenn greiða um 35 þúsund fyrir mánuð í leikskóla en greiðslur til dagforeldra geta numið allt að 90 þúsund krónum eða jafnvel meira á mánuði.

Frá því að opnað var fyrir umsóknir um niðurgreiðslur hafa fimmtíu sótt um.

„Umsóknir eru teknar fyrir og afgreiddar jafnóðum uppfylla þær öll skilyrði aukinnar niðurgreiðslu,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður skóla- og frístundaráðs í Reykjavíkurborg.

Ekki gætt að jafnræði

Frá því að tilkynnt var um niðurgreiðsluna hafa foreldrar barna sem eru 18 mánaða eða eldri og eru ekki hjá dagforeldrum en ekki í leikskóla kvartað undan því að ekki sé gætt að jafnræði við niðurgreiðsluna.

Arnór Bjarki Svarfdal, faðir 21 mánaða stúlku, sagði í viðtali í síðustu viku að dóttir væri hvergi komin inn og hann ekki getað unnið fulla vinnu. Hann fái ekki niðurgreiðslu en verði fyrir um 200 þúsund króna tekjutapi mánaðarlega.

Árelía Eydís segir það til skoðunar hjá skóla- og frístundasviði borgarinnar hvort hægt sé að opna fyrir umsóknir annarra foreldra fyrir niðurgreiðslu en bara þeirra sem eru með börn í dagforeldrakerfinu. Niðurgreiðslan var kynnt fyrst síðasta sumar sem liður í styrkingu dagforeldrakerfisins. Árelía Eydís segir að skóla- og frístundaráð taki málið ekki fyrir fyrr en sviðið hafi skoðað málið ítarlega og að það muni taka einhvern tíma, samkvæmt visir.

oli
Author: oli

Vefstjóri