Spjaldtölvuvæðing hefst í Álftanesskóla

Spjaldtölvuvæðing hefst í Álftanesskóla

Hægt að stýra efni eftir þörfum hvers nemanda.

 

Nemendur og kennarar í Álftanesskóla taka nú þátt í skólaþróunarverkefni þar sem notaðar eru spjaldtölvur sem eru sérhannaðar til kennslu og náms. Sveinbjörn Markús Njálsson skólastjóri segir tækið bjóða upp á margvíslega möguleika.

Námsgagnastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og A4, sem er dreifingaraðili tölvanna, standa að verkefninu, auk Álftanesskóla. Í því felst að skólinn kaupir 30 Learnpad 2-spjaldtölvur fyrst um sinn, allt að 60 í heildina, sem notaðar verða í stærðfræðikennslu í 4. og 6. bekk. Alls fylgja 22 forrit hverri vél, sem og tólf rafbækur.

Verkefnið hefst strax á nýju ári og verður tekið út af sérfræðingum Menntavísindasviðs HÍ sem munu skila lokaskýrslu um það sumarið 2014.

Learnpad 2 er framleidd af breska fyrirtækinu Avantis Systems og notar Android-stýrikerfi. Á tölvunni geta nemendur nýtt sér kennsluforrit, meðal annars á Flash-formi eins og notað er á síðu Námsgagnastofnunar, Skólavefnum og Stoðkennaranum, og vafrað á öruggar síður sem kennari hefur skilgreint fyrir fram. Þá geta kennarar hagað efninu sem fer inn á hverja tölvu eftir þörfum viðkomandi nemanda.

Forritin sem fylgja tölvum Álftanesskóla fjalla meðal annars um bókstafi, byrjendastærðfræði, margföldun, brotareikning, liti og form og tónlist. Þar að auki er mögulegt að sækja enn fleiri náms- og kennsluforrit á netinu.

„Þessi tækni er einmitt það sem við leituðum að,” segir Sveinbjörn. „Í Álftanesskóla er að hefjast átak í stærðfræði og við ákváðum að nýta þessa leið sem eflandi og áhugahvetjandi farveg til að efla kunnáttu og læsi nemenda í stærðfræði.”

Sveinbjörn segir vefstjórnargáttina vera einn stærsta kostinn við þessa tækni, en hún gerir kennurum kleift að stýra því efni sem er inni á vél hvers nemendahóps, eða einstaks nemanda.

Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, segir verkefnið afar spennandi. Notkun á stafrænu námsefni á spjaldtölvum geti ýtt undir sjálfstæði nemenda og skapandi nám og kennslu.

„Reynslan verður þó að leiða í ljós hvaða áhrif ný tækni hefur á skólastarf og því er afar mikilvægt að markvisst sé fylgst með tilraunum af þessu tagi svo hægt verði að meta raunveruleg áhrif spjaldtölvunotkunar á skólastarf,” segir hún, samkvæmt vísir.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri