Skima ætti fyrir fæðingarþunglyndi hjá feðrum
Allar konur fara í skimun fyrir fæðingarþunglyndi eftir barnsburð. Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir hjá Miðstöð foreldra og barna segir að reynslan sýni að fæðingarþunglyndi leggist ekki aðeins á nýbakaðar mæður.
„Við erum að sjá betur og betur að þetta á ekkert síður við um hitt foreldrið, sem oftast eru jú feður. Þetta hefur ekki eins mikið með líkamlegu breytingarnar eins og við héldum, heldur þetta breytta hlutverk, breytta sjálfsmynd og álagið sem fylgir því að eignast barn,“ segir Sæunn.
Ekki mæðravernd heldur foreldravernd
Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans segir að líðanin sé smitandi og körlum sé hættast við fæðingarþunglyndi, glími konur þeirra við sama vandamál.
„Það vantar skimun á þunglyndiseinkennum fyrir nýbakaða feður. Ég veit að það er vakning meðal ljósmæðra á Íslandi að sinna feðrunum meira og þá ætti þetta kannski ekki að vera mæðravernd heldur foreldravernd. Ég get vitnað í eina rannsókn þar sem að algengi fæðingarþunglyndis eftir fæðingu hjá karlmönnum, nýbökuðum feðrum er frá 5% upp í 8,4%. Þetta er þegar verst lætur einn af hverjum tíu sem glímir við þunglyndiseinkenni í einhverjum mæli,“ segir Björn.
Sæunn segir að foreldrar leiti hjálpar oftast vegna vanlíðan föður. „En það er stundum vanlíðan föður. En þegar við hittum feðurna, sem við reynum alltaf að gera, þá auðvitað kemur í ljós ýmislegt, þeim líður ekki vel og þeir eru að berjast við mikla vanlíðan en það hefur enginn gripið þá,“ segir Sæunn jafnframt.
„Karlmennskan er alltaf í skoðun. Mér finnst það mikil karlmennska að geta verið í snertingu við tilfinningar sínar og geta tengst börnunum sínum. Ég held að það sé nýja karlmennskan,“ bætir Sæunn við, samkvæmt ruv.
{loadposition nánar fréttir}