Segir það eðlilegt skref fram á við að opna heilsugæslu fyrir konur

Segir það eðlilegt skref fram á við að opna heilsugæslu fyrir konur

Segir það eðlilegt skref fram á við að opna heilsugæslu fyrir konur

Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í gær að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, stefnir á að opna sérstaka heilsugæslu fyrir konur þar sem ljósmæður myndu sjá um starfsemina. Er hugmyndin sú að nýta betur sérþekkingu þeirra.

Ýmsir læknar hafa í kjölfarið gagnrýnt þessi áform ráðherra, líkt og Vísir greindi frá í morgun, og telja ráðherra á rangri leið með sérstakri „túrverkja- og tíðarhvarfamiðstöð“ og „hysteríu klíník.“

Telur mikla þörf á úrræðinu

Áslaug gefur lítið fyrir gagnrýni um að heilsugæslan verði „túrverkjamiðstöð“ eða „hysteríu klíník“ og segir það hafa sýnt sig að konur fái öðruvísi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins en karlmenn.

Salóme Ásta Arnardóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, bendir aftur á móti á að meirihluti þeirra sem leiti á heilsugæsluna séu konur og að meirihluti þeirra sem þar starfa séu konur. Hún kveðst ekki geta séð það sem sértakt vandamál að konur mæti ekki skilningi í heilsugæslunni og segist jafnframt ekki sjá þörf fyrir að ívilna sérstaklega heilbrigðisþjónustu fyrir konur umfram aðra.

Þvert á móti telur Áslaug að það sé mikil þörf fyrir úrræði á borð við sérstaka heilsugæslu fyrir konur. Segir hún margt af því sem konur leiti til sérfræðilækna með séu ekki endilega veikindi.

„Þú ert kannski í einhverjum vandræðum með að verða ófrísk og vilt einhverjar smá ráðleggingar, þetta er ekki sjúkleiki, þetta á ekkert endilega erindi til lækna. Eða þú vilt stjórna þínum barneignum og fá getnaðarvarnir, það er heldur ekki sjúkleiki, og á ekkert endilega erindi til lækna. Það hefur verið mjög langur biðtími á sumum heilsugæslum eftir heimilislækni og það er bara eðlilegt að aðrir starfsmenn geti sinnt því sem eru ekki endilega veikindi,“ segir Áslaug.

Þá bendir hún jafnframt á að menntun ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga sé þess eðlis að þau sjái það strax ef eitthvað sjúklegt er að sem þarfnast meðhöndlunar læknis.

„Þá myndirðu náttúrulega vísa því og setja í réttan farveg.“

Hugmyndin komin frá ljósmæðrum sjálfum

Áslaug segir hugmyndina um heilsugæsluna komna frá ljósmæðrum sjálfum en aðspurð hvort þetta sé eitthvað sem hafi komið fram í kjaraviðræðum ríkisins og ljósmæðra fyrr á árinu segir hún þetta ekki beint vera úr kjaraviðræðunum.

„Þetta hefur náttúrulega stundum verið til umræðu áður en núna einhvern veginn virtist vera rétti farvegurinn. Það er líka verið að tala um að efla heilusgæsluna og við erum líka væntanlega að fá leyfi til að ávísa getnaðarvörnum. Þá geta til dæmis allar konur sem eru að hugsa um það komið til ljósmæðra. Nú verður læknir að ávísa þessu. Við höfum í mörg ár talað um að það sé óeðlilegt. Það getur hvaða læknir sem er skrifað upp á þetta. Til dæmis hjartalæknir sem hefur ekki hugsað um kvenhormón í mörg ár getur gefið út lyfseðil fyrir getnaðarvörnum en ekki ljósmóðir sem er alla daga að spá í hormón. Okkur hefur fundist þetta skjóta skökku við,“ segir Áslaug.

Hún segist fyrst hafa viðrað þessa hugmynd við núverandi heilbrigðisráðherra í vor og svo farið á formlegan fund með honum vegna málsins í lok ágúst.

Leituðu til sama læknis með sama vandamál en fengu mismunandi meðferð

Í haust fór af stað mikil umræða á meðal íslenskra kvenna á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem þær lýstu upplifunum sínum af samskiptum við lækna sem hlustuðu ekki á þær þegar þær lýstu heilsufarsvandamálum sínum. Spurð út í þessa upplifun kvenna á læknisheimsóknum og hvort að það spili eitthvað inn í þörfina fyrir sérstaka heilsugæslu fyrir konur segir Áslaug:

„Það má varla segja þetta upphátt en ég held náttúrulega að þetta sé oft tímaskortur hjá læknum. Þeir nenna ekki að fara í „the basics.“ Það er miklu erfiðara að fara djúpt í söguna hjá einhverjum sem er kannski með einhvern undirliggjandi vanda einhvers staðar, þurfa langt samtal, þurfa jafnvel að koma aftur í samtal. Það er miklu auðveldara að dusta þetta í burtu með einhverri svona grunnri niðurstöðu. Ég held að ástæðan fyrir því að þetta er algengara á meðal kvenna sé sú að það er oft bara meira álag á konum en körlum. Kannski almennt, ég er ekki að alhæfa, þannig að það eru bara fleiri konur sem eru með álagsvandamál.“

Áslaug segir síðan frá hjónum sem hún þekkir persónulega sem leituðu til sama læknis, bæði með bakverki. Læknirinn vissi ekki að konan og maðurinn væru hjón en maðurinn kom frá lækninum með sjúkraþjálfarabeiðni og röntgenbeiðni. Konan hins vegar kom út með það að þetta væri kannski breytingaskeiðið og mögulega kvíði.

„Ég er viss um að það er enginn læknir sem hugsar með sér „Þetta er kona ég ætla að afgreiða hana öðruvísi.“ Þetta er bara eitthvað ósjálfrátt. Ég held að þetta sé ómeðvitað hjá mörgum,“ segir Áslaug.

„Alltaf valdabarátta“

En hvernig svarar hún gagnrýni um að svona heilsugæsla verði „túverkjamiðstöð“ eða „hysteríu klíník“ og að með opnun hennar sé verið að smætta veikindi kvenna niður í móðurlíf þeirra?

„Þetta á ekki endilega að snúast bara um legið og móðurlífið. Við vitum það og það hefur sýnt sig að konur eru að fá öðruvísi þjónustu. Þar að auki er þetta þjónusta við konur sem eru ekki endilega veikar. Það má segja að þetta sé ráðgjafaþjónusta fyrir ýmislegt sem tengist kvenheilsunni, sveppasýkingar, túrverkir, getnaðarvarnir, ófrjósemi, væg breytingaskeiðsvandamál. Við hugsum þetta líka sem aðstoð við brjóstagjöf. Núna hefur vantað svolítið upp á það að ef kona er með tveggja þriggja mánaða barn á brjósti þá á hún hvergi heima með aðstoðina. Hún er dottin út úr því að geta komið á sængurkvennagang. Það er eðlilegt að þetta sé í nærumhverfi hjá konunni,“ segir Áslaug og bætir við að læknar vilji alltaf halda öllu.

„Þetta er alltaf valdabarátta. Þeir eru auðvitað hræddir um að þeir séu að missa spón úr aski sínum en það er ekki þannig. Þetta er hugsað fyrir konur sem ráðgjafaþjónusta eins og ég skil þetta.“

Ekki markviss notkun á peningum

Salóme Ásta segir aðspurð að henni lítist vel á að það verði lagðir auknir fjármunir í heilsugæsluna. Hún segir að það hafi verið þannig undanfarið að þegar aukið fé hafi komið þar inn þá hafi það verið eyrnamerkt tilteknum verkefnum.

„Ef að þetta aukna fé á að vera eyrnamerkt ljósmæðrum þá fagna ég því líka. Ljósmæður sinna mæðravernd og gera það af miklum styrk og þær eru að vinna það mikið og gott starf. Mæðravernd á Íslandi er heilsugæslunni dýrt fyrirbæri og það vissulega veitir ekkert af peningum þar,“ segir Salóme og bætir við:

„Að því sögðu þá er það mjög mikilvægt að þessir peningar fari í heilsugæsluna og til skipulags innan heilsugæslunnar en verði ekki til þess að það verði stofnaðar einhverjar sérdeildir fyrir annað kynið. Það sé ég ekki að sé markviss notkun á peningum í heilsugæslu en aftur á móti þá treysti ég heilsugæslunni mjög vel til þess að sjá til þess að þetta komið að góðum notum fyrir fólk innan heilsugæslunnar og starf ljósmæðra.“

Skilur gagnrýni um undarlega forgangsröðun

Salóme bendir jafnframt á að heilsugæslan sé grunnstoð heilbrigðiskerfisins. Hún segist skilja þá gagnrýni vel að þetta sé undarleg forgangsröðun hjá ráðherra þegar staðan hjá heilsugæslunni sé eins og hún en í mörg ár hefur verið bent á það að meiri fjármunum þurfi að veita í heilsugæsluna.

„Ég persónulega sé ekki þörf fyrir að ívilna sérstaklega heilbrigðisþjónustu fyrir konur umfram aðra. Aftur á móti eru tækifæri í þessu, til dæmis má taka er leghálsskimun sem hefur farið fram í Krabbameinsfélaginu. Eina leiðin fyrir heilsugæsluna til að taka það upp af Krabbameinsfélaginu eins og hefur verið rætt væri í gegnum aukafjármagn og það væri vissulega beint að konum,“ segir Salóme.

Varðandi þá umræðu að konur mæti ekki skilningi hjá læknum og séu álitnar hysterískar eða jafnvel ímyndunarveikar þegar þær leiti til læknis segir Salóme:

„Meirihluti þeirra sem leita á heilsugæsluna eru konur. Meirihluti þeirra sem vinna á heilsugæslunni eru konur. Meirihluti þeirra yngri sérnámslækna og ungra lækna í heimilislækningum eru konur. Ég get ekki séð að það sé eitthvert sérstakt vandamál að konur mæti ekki skilningi í heilsugæslunni. Fólk almennt þarf skilning og virðingu þegar það mætir á heilsugæslu og það á ekki bara við um konur.“, samkvæmt visir.

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri