Próf sem ákvarðar þörf á keisaraskurði
Magn mjólkursýru í legvatni segir til um hvort barnshafandi kona þurfi á keisaraskurði að halda.
Þróað hefur verið nýtt próf sem getur komið í veg fyrir að konur verji löngum tíma með erfiðar hríðir í von um að fæða á náttúrulegan hátt en endi svo í bráðakeisaraskurði.
Prófið var þróað af sænska fyrirtækinu Obstecare en byggt á rannsóknum sem framkvæmdar voru af háskólanum í Liverpool og kvennaspítala Liverpool.
Rannsóknirnar sýndu að legið framleiðir mjólkursýru líkt og aðrir vöðvar líkamans. Þegar sýran nær ákveðnu magni í legi verður hún til að hamla samdráttum. Með því að mæla magn mjólkursýru í legvatni væri þannig hægt að ákvarða hvort kona geti fætt á eðlilegan hátt eða hvort skynsamlegra sé að velja strax keisaraskurð.
Hormónið oxytocin er venjulega gefið konum þegar fæðing gengur hægt til að örva legið, en ekki allar konur bregðast við því. Johan Ubby hjá Obstecare segir að hátt magn mjólkursýru í legvatninu bendi til þess að legið sé uppgefið og að gefa konu sem þannig er ástatt fyrir oxytoxin sé eins og að biðja maraþonhlaupara að hlaupa tíu kílómetra til viðbótar þegar hann kemur í mark. Því sé betra að velja strax keisaraskurð í staðinn fyrir að leggja meira á konuna.
Prófið verður notað í nokkrum sjúkrahúsum í Evrópu á næstu mánuðum til frekari rannsókna.
Heimildir: vísir