Ólga vegna leikskóla í Sandgerði

Ólga vegna leikskóla í Sandgerði

Mikil ólga er á meðal foreldra í Sandgerði vegna leikskólans Sólborgar. Óttast er að mygla hafi tekið sig upp á ný í skólanum, en húsið var lagfært fyrir um ári síðan.

Bæjarstjóri Suðurnesjabæjar segir mögulegt að flytja starfsemi úr núverandi leikskóla Sólborgar á næstunni. Mikil ólga er á meðal foreldra á leikskólanum sem er í Sandgerði, en óttast er að mygla hafi tekið sig upp á ný eftir viðgerðir á skólahúsnæðinu.

Leikskólinn er rekinn af Skólar eignarhaldsfélagi sem rekur nokkra leikskóla á Reykjanesskaganum. Upp kom mygla í húsnæðinu og var farið í umfangsmiklar lagfæringar á því. Lauk viðgerðum árið 2023 og héldu menn þá að verkefninu væri lokið.

Segja myglu enn til staðar

Í umræðunni sem myndast hefur um leikskólann er því haldið fram að myglan sé ekki horfin og valdi veikindum hjá starfsfólki og börnum. Magnús Stefánsson er bæjarstjóri Suðurnesjabæjar. Hann segir bæinn mæla reglulega loftgæði í skólanum og ekkert fundið. Hann útilokar þó ekkert.

„Þetta virðist bara vera eitthvað sem erfitt er að eiga við, vegna þess að menn hafa ekki fundið núna að því er mér skilst, mælingu á myglugróum. En það getur ekki útilokað að það sé eitthvað í húsinu,“ segir Magnús.

Nýtt húsnæði nær tilbúið

Umræðan braust út á samfélagsmiðlum í gær, föstudag og þar er einnig að finna gagnrýni á yfirmenn skólans sem og deildir sem eru oft lokaðar. Magnús segir nýtt skólahúsnæði nánast tilbúið til notkunar. Það skýrist á allra næstu dögum hvenær það verði tekið í gagnið.

„Það kemur í ljós væntanlega núna á mánudaginn, eða mánudagsmorgun, hvort við getum flutt allavega hluta af starfseminni í annað húsnæði,“ segir Magnús.

Ekki gott að standa í þessu

Gagnrýni foreldra kom bæjarstjórn í opna skjöldu og segir Magnús að farið verði í það á mánudag að ræða málið á vettvangi sveitarfélagsins til þess að leita lausna.

„Því miður þá er þetta ekki gott auðvitað, og okkur finnst mjög vont að standa í þessu,“ segir Magnús að lokum.

Ekki náðist í forsvarsmenn Skóla ehf, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri