Missti vatnið í þann mund sem gosið hófst

Missti vatnið í þann mund sem gosið hófst

Um sex að morgni síðasta fimmtudags hófst ótrúleg atburðarás fyrir litla fjölskyldu í Reykjanesbæ. Ung móðir missti vatnið í sömu andrá og gos hófst fyrir utan stofugluggann.

Hugmyndir hjóna í Reykjanesbæ um hina fullkomnu fæðingu fóru algjörlega úr skorðum á fimmtudagsmorgun þegar Sundhnúksgígaröðin rumskaði á ný. Þrátt fyrir ýmsar hindranir í vegi foreldranna, fæddist heilbrigður gosdrengur.

Foreldrar gera sér oft hugmyndir um hina fullkomnu fæðingu og hvernig skuli að henni staðið. Plön geta þó verið fljót að renna í sandinn, líkt og Paulina Wota og maki hennar, Alessandro Hobbins, komust að fyrir helgi.

Klukkan að ganga sex um morgun missir Paulina vatnið. Það er um það leyti sem hún uppgötvar að gos er hafið rétt utan bæjarmarkanna.

Vildi fæða á HSS en endaði á Landspítala

Þegar glóandi himininn mætti þeim á leiðinni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, grunaði þau ekki að innan nokkurra klukkustunda myndi heitavatnsleysi setja allt úr skorðum. „Ætlunin var í upphafi að fæða á spítalanum í Keflavík þar sem boðið er upp á náttúrlega fæðingarhjálp,“ segir Paulina.

Vegna heitavatnsleysis gat Paulina ekki fengið að fæða á HSS, en fékk val um heimafæðingu eða fæðingu á Landspítalanum. Af tveimur kostum völdu þau að láta reyna á fæðinguna heima. Þegar ljóst var að það gengi ekki heldur þurfti Paulina að fallast á sísta valkostinn – að fæða á Landspítalanum.

Og í heiminn kom heilbrigður gosdrengur.

Héldu sig öll í hlýjunni í svefnherberginu

Sólarhring eftir fæðingu komu þau heim með drenginn. Íbúðin var frekar köld en fjölskyldumeðlimir höfðu séð til þess að hita svefnherbergið með rafmagnsofnum.

„Við héldum okkur bara inni í svefnherberginu því í hinum herbergjunum, eldhúsinu og stofunni, var of kalt fyrir okkur,“ segja þau.

„Fallegt og ruglingslegt“

Og tilfinningarnar eftir þennan örlagaríka gosdag voru blendnar. „Fallegt og ruglingslegt,“ eru orðin sem Alessandro notar til að lýsa þeim. „Við fórum að heiman, sáum gosbjarmann, komum á fæðingardeildina og okkur var sagt að gosið væri byrjað. Við hugsuðum: Hvað er að gerast? Allt á sama tíma! Þetta var frekar dramatískt,“ segir hann, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri