Mikill verðmunur er á innkaupalistum
Þannig gefa sumir skólar út langa og ítarlega innkaupalista en aðrir listar eru mjög einfaldir og kveða einungis á um pennaveski og einföld skriffæri. Í þeim tilfellum kaupa kennararnir stundum inn fyrir börnin og foreldrarnir greiða skólanum svo efnisgjald.
Á sumum listum má sjá hluti eins og talnagrindur, sérstaka teikniblýanta og reiknivélar fyrir nemendur í fyrsta bekk.
Sem dæmi má nefna að innkaupalisti Hólabrekkuskóla í Breiðholti gerir ráð fyrir því að nemendur kaupi talnagrind, reiknivél, spilastokk og hvorki meira né minna en sex stór límstifti. Vörurnar á listanum kosta 13.072 krónur í vefverslun Heimkaupa.
Til samanburðar þarf að greiða 4.884 krónur í vefversluninni fyrir innkaupalista grunnskólans á Egilsstöðum og ekkert efnisgjald er greitt í skólanum.Munurinn hleypur því á rúmum 8.000 krónum.
Innt eftir því hvers vegna svo mikill munur er á innkaupalistunum segir Hólmfríður G. Guðjónsdóttir, skólastjóri í Hólabrekkuskóla: „Börnin eiga þetta oft mjög lengi. Þetta fylgir þeim oft í mörg ár, til dæmis talnagrindin.“
Hún segir börnin kaupa mikið af lími vegna þess að þau föndra mikið til að byrja með.
„Það er mjög mikil sköpun í byrjendalæsi hjá okkur sem skýrir þörfina fyrir föndurvörur og margt af því sem er á listanum er eitthvað sem er til á flestum heimilum fyrir, til dæmis vatnsbrúsi, spilastokkur og vasareiknir. Þetta er svona startpakki fyrir skólann hjá þeim,“ segir Hólmfríður G. Guðjónsdóttir.
57% verðmunur á skólabókum
Samkvæmt verðlagskönnun ASÍ er allt að 57% verðmunur á nýjum skólabókum í skólabókaverslunum.
Forlagið og A4 voru oftast með lægsta verðið á nýjum bókum en níu titlar af 32 voru ódýrastir hjá þeim. Griffill kom þar á eftir með lægsta verðið á sjö titlum og Bóksala stúdenta á sex.
Bókabúðin IÐNÚ var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða á sautján titlum af 32, Bóksala stúdenta á sex og Eymundsson á fimm, samkvæmt vísir.
{loadposition nánar fréttir}