Málum fækkar hjá stígamótum.
Ársskýrsla Stígamóta fyrir árið 2009 er komin út. Þar er sagt frá tuttugasta starfsári samtakanna og teknar saman tölulegar upplýsingar. Þar kemur meðal annars fram að 539 einstaklingar leituðu til Stígamóta á síðasta ári en viðtölin voru tæplega tvö þúsund talsins, álíka mörg og árið áður. Þá vekur athygli, að nýjum málum fækkaði á síðasta ári úr 273 í 231, eða um fimmtán prósent. Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að flestir leiti til Stígamóta árum og áratugum eftir að ofbeldi á sér stað. Það þurfi kraft og þor til að takast á við málin. Það gæti verið að það þrek væri ekki lengur til staðar hjá fólk sem kannski býr við slæm efnahagsleg skilyrði.
Fjöldi nauðgunarmála var svipaður og árið áður, 157, en sifjaspellsmálum hefur fækkað undanfarin fjögur ár. Hópnauðganir voru þrettán talsins og ætlaðar lyfjanauðganir líka þrettán. Guðrún rekur fækkun nýrra mála ekki síst til niðurskurðar og fjárskorts hjá samtökunum á síðasta ári. Þurft hafi að segja upp fólki og skera niður þjónustu úti á landi.
{loadposition nánar fréttir}