lus
|

Lús

Lús – Upplýsingar til foreldra

Allir geta fengið lús og lúsasmit er ekki merki um óþrifnað.

Lúsin smitast nær eingöngu við beina snertingu. Það er sáralítil hætta á að smitast af umhverfinu en það er möguleiki að smitast af greiðum/burstum og höfuðfötum. Lús sem dottið hefur úr höfði verður fljótt löskuð og veikburða.

Leitið að lús hjá barni ykkar og öðru heimilisfólki reglulega samkvæmt eftirfarandi leiðbeiningum:

  • Skoðið hárið vel undir sterku ljósi, lúsin kann best við sig í hnakka, á hvirfli og aftan við eyru.
  • Eggin/nitin eru eins og litlir hnúðar á hárinu. Nitin eru oft ljós, dökk eða silfurlit (tóm). Lúsin límir þau föst, þess vegna strjúkast þau ekki auðveldlega af hárinu.
  • Það er tiltölulega auðvelt að sjá fullvaxna lús, hún er 2-3 mm að stærð, oft grá, dökk eða ljósbrún.
  • Hins vegar getur verið mjög erfitt að finna þær lýs sem eru nýkomar úr eggjunum, þær eru pínulitlar og hálfgegnsæjar.

Notið sérstaka lúsakamba sem fást í lyfjaverslunum. Til eru mismunandi tegundir af kömbum, t.d. sérstakir fyrir þykkt og sítt hár.

  • Greiðið í gegnum hárið.
  • Setjið hárnæringu í þurrt hárið (Landlæknir segir blautt hár)og dreifið henni vel um hárið.
  • Byrjið að kemba með kambinum við hársvörðinn og kembið vel út í hárendana, gerið þetta yfir hvítu blaði, spegli eða vaski með vatni.
  • Sé hárið sítt eða þykkt er betra að skipta hárinu upp og kemba hvert svæði fyrir sig.
  • Eftir hverja kembingu í gegnum hárið, er rétt að strjúka af kambinum með eldhúspappír til að tryggja að lús eða nit verði ekki eftir í kambinum.

Ef lús finnst í hári þarfnast það meðhöndlunar með sérstöku lúsameðali sem fæst án lyfseðils í lyfjaverslunum.

  • Tilkynnið lúsasmitið til skólans
  • Leitið að lús hjá öllum í fjölskyldunni, meðhöndlið aðeins þá sem eru með lús.
  • Fylgið leiðbeiningum um meðhöndlun nákvæmlega.
  • Endurtakið alltaf meðferðina með lúsameðalinu eftir 8 daga eða samkvæmt leiðbeiningum.
  • Ráðlagt er að kemba alla í fjölskyldunni daginn eftir meðferð (á 1. degi) til að athuga hvort meðferð hafi tekist. Ef lús finnst þarf að endurtaka meðferð strax.
  • Kemba þarf á fjögurra daga fresti næstu 2 vikur þ.e. á 1. degi, 5. degi, 9. degi og 13. degi.
  • Ekki er nauðsynlegt að þrífa heimili eða fatnað sérstaklega.
  • Ráðlegt er að meðhöndla bursta, greiður, kamba, hárskraut og húfur vegna möguleika á smiti.
  • Hella skal sjóðandi vatni yfir og láta liggja í bleyti í 10-15 mín. eða frysta í 4-6 klst.
  • Ef þið þurfið nánari upplýsingar, vinsamlega hafið samband við skólahjúkrunarfræðing.
oli
Author: oli

Vefstjóri