Ljósmæðranemar vinna launalaust
Rebekka Jóhannesdóttir vakti athygli á því í síðustu viku að hún þarf að hætta námi vegna fjárskorts og grátbað spítalann að setja nemalaun aftur á.
„Tæknilega séð gæti ég fengið mér vinnu og unnið allar helgar en námið sem ég er í, ljósmóðurfræði býður ekki upp á það þar sem námið byggist að mestum hluta upp sem klínísk kennsla, sem þýðir það að ég er í 80% vinnu á Landspítalanum og ég fæ ekkert borgað fyrir það,“ sagði hún í pistli á Facebook síðu sinni.
Inga María Hlíðar Thorsteinson, nýútskrifuð ljósmóðir, segir þetta miður og að seinna árið, þegar ljósmæðranemar vinna sjálfstætt, ætti að vera launað.
„Það er í rauninni fullt starf sem við erum að vinna, auk þess að vera í skólanum. Svo það reynist okkur ómögulegt að vinna með fram þessari starfsskyldu. Við erum að bæta við okkur framhaldsnámi við hjúkrunarmenntum. Erum því búnar að vera heillengi, eða nokkur ár, ólaunað í klínísku námi, þannig að mér finnst þetta ekki eiga rétt á sér,” segir Inga María.
Samkvæmt samtali fréttastofu við lögfræðing Bandalags háskólamanna, heildarsamtaka sem Ljósmæðrafélag Íslands tilheyrir, er almenn afstaða þeirra sú að greidd séu laun fyrir þau störf sem innt eru af hendi. Bandalagið hefur ásamt Landssamtökum íslenskra stúdenta m.a. sent mennta- og menningarmálaráðherra bréf þess efnis og kallað eftir því að settar séu skýrar reglur um starfsnám á háskólastigi.
„Það er samt til þess að við getum útskrifast og sinnt því sem við eigum að sinna, þá þurfum við að vinna alveg sjálfstætt. Þó svo að við séum með einhvern á bak við okkur þá erum við að vinna vinnuna. Það er mikið álag á þessum vöktum sem við erum á þó svo að við höfum einhvern til að leita til,” segir Inga María að lokum., samkvæmt visir.
{loadposition nánar fréttir}