Leikskólakennarar greiða atkvæði um verkfall

Leikskólakennarar greiða atkvæði um verkfall

Formaður félagsins segir leikskólakennara hafa dregist aftur úr viðmiðunarstéttum og brýnt sé að jafna launakjör þeirra. Samþykki leikskólakennarar verkfallsboðunina hefst verkfall mánudaginn 22. ágúst.

Félagi leikskólakennara er boðið að skrifa undir sambærilegan samning og önnur félög hafa undirritað að undanförnu. Sá samningur felur í sér tæplega 13% launahækkun á næstu þremur árum auk 75 þúsund krónu eingreiðslu. Félagið vill að fundin verði leið sem tryggir félagsmönnum leiðréttingu til viðbótar til að jafna launakjör við viðmiðunarstéttir. Samninganefnd sveitarfélaganna hefur ekki orðið við þessari kröfu.

„Við höfum dregist aftur úr viðmiðunarstéttum og þann mun viljum við leiðrétta. Við teljum að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir leikskólastigið sem skólastig að vera samkeppnishæft á markaði og það sé raunverulegur akkur að því að fara í leikskólakennaranám,“ segir Haraldur Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. Leiðrétting á launum leikskólakennara væri skref í rétta átt.

Til þess að verkfallsboðunin teljist samþykkt þurfa 50% félagsmanna að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og 50% þeirra að samþykkja hana. Atkvæðagreiðslan hefst á morgun. „Hún fer fram rafrænum hætti og verða niðurstöður ljósar þriðjudaginn 14. júní,“ segir Haraldur.

{loadposition nánar fréttir}
oli
Author: oli

Vefstjóri