Lækka ekki skatt á bleium
Talið er að hvert barn noti að minnsta kosti 5.000 bleiur fyrstu ár ævinnar. Áætlað er að plastbleiur séu allt að 500 ár að eyðast í umhverfinu og því hafa margir skipt yfir í taubleiur. Auk þess sem þær eru umhverfisvænar getur hlotist af því mikill sparnaður fyrir barnafólk að nota taubleiur.
Þingmennirnir Lilja Mósesdóttir og Birkir Jón Jónsson lögðu í gær fram breytingartillögu á Alþingi þar sem lagt var til að virðisaukaskattur á margnota bleium yrði lækkaður úr 25,5% í 7%. Markmið tillögunnar var að lækka kostnað nýbakaðra foreldra, draga úr notkun einnota bleia og um leið minnka mengun af völdum sorps. Sitt sýndist hverjum um málið en svo fór að lokum að tillagan var felld með einu atkvæði, 19 -18. Flestir þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði gegn tillögunni, en þingmenn stjórnarandstöðu með.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Vinstri grænna, þýddi fyrir nokkrum árum bókina „Uppeldi fyrir umhverfið” ásamt manni sínum, en þar er meðal annars mælt með umhverfisvænum bleium. Þrátt fyrir það var hún ein þeirra sem greiddi atkvæði gegn tillögunni í gær.
„Ég greiddi atkvæði á móti henni því mér finnst mikilvægt að við skoðum málið heildstætt. Ég held að við þurfum að horfa á þessi mál út frá því hvort við séum að horfa á umhverfisvænar vörur á borð við taubleiur, sem eru auðvitað umhverfisvænar, eða erum við að horfa á þetta út frá hagsmunum barnafólks og skoða þá hvaða leiðir eru færar. Því það er auðvitað ábyrgðarhluti að fara að hreyfa við virðisaukaskattskerfinu nema maður viti nákvæmlega hvaða heildarmynd maður ætlar að enda með. Það er nú ástæðan fyrir því”.
Þú sjálf, þriggja barna móðir, notar þú svona bleiur? „Ég notaði þær á fyrstu tvö börnin. Og það var bara mjög gott. Það krefst vissulega ákveðins tíma en það var mjög gott bæði fyrir börnin og umhverfið”, sagði Katrín, samkvæmt vísir.
{loadposition nánar fréttir}