Kjaradeilu vísað til sáttasemjara
Félagið bauð skólunum upp á sama kjarasamning og gildir hjá sveitarfélögunum, en því tilboði var hafnað.
Kjaradeila leikskólakennara og Samtaka sjálfstæðra skóla hefur staðið um hríð.
Síðasta haust var skrifað undir svokallaðan tilvísunarsamning sem gilti til 31. desember. Hann kvað einfaldlega á um að kjarasamningur Félags leikskólakennara og sveitarfélaganna gilti líka fyrir starfsmenn Sjálfstæðra skóla.
Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir að í viðræðum að undanförnu hafi verið farið fram á 6 – 8 launaflokka hækkun, sem sé sambærileg og skrifað hafi verið undir í kjarasamningi leikskólakennara við sjálfstætt starfandi skólann Aðalþing í haust.
Forráðamenn skólanna vildu ekki samþykkja það án fyrirvara.
„Samtök sjálfstæðra skóla vildu fara í breytingu á sjúkrasjóði kennarasambands Íslands sem er eitthvað sem Félag leikskólakennara hefur ekkert forræði yfir og þær viðræður þurfa að fara í gegnum kennarasambandið.“
Haraldur segir að þá hafi verið boðið upp á að skrifað væri undir sveitarfélagasamninginn – og hann borinn undir atkvæði félagsmanna. Því höfnuðu Samtök sjálfstæðra skóla og deilunni var í framhaldi vísað til Ríkissáttasemjara.
Nú sé beðið eftir viðbrögðum þaðan. „Ríkissáttasemjari boðar til fundar og vonandi leysist þetta mál bara fljótt og örugglega.“ samkvæmt ruv.
{loadposition nánar fréttir}