Íslendingar með ánægðustu þjóðum
Þetta kemur fram í alþjóðlegri könnun sem Capacent gallup vann. Á heimsvísu er rétt rúmur helmingur fólks ánægður með líf sitt en hér á landi eru þrír fjóðu ánægðir.
73% Íslendinga eru ánægðir með líf sitt og 7% óánægð, 19% eru hvorki ánægð né óánægð og 1% tók ekki afstöðu. Á heimsvísu eru 53% fólks ánægð með líf sitt en 13% óánægð, 31% er hvorki ánægt né óánægt með líf sitt og 3% taka ekki afstöðu.
Talsverður munur er á ánægju fólks með líf sitt eftir heimshlutum. Ánægjan mælist minnst í Arabalöndunum en þar segist fimmtungur ánægður, og Austur-Evrópu þar sem fjórðungur er ánægður. Ánægjan mælist mest í Afríku og í Rómönsku-Ameríku þar sem tveir þriðju segjast ánægðir.
Þrátt fyrir að landsframleiðsla Norður-Ameríku sé hærri en nær allra Vestur-Evrópulanda, og íbúar hennar séu bjartsýnni á efnahagshorfur næsta árs en Vestur-Evrópubúar, eru þeir almennt óánægðari með líf sitt. Helmingur þeirra sem búa í Vestur-Evrópu eru ánægðir og einungis þriðjungur Norður-Ameríkubúa.
Hér sannast hið fornkveðna að hamingjan verður ekki keypt dýrum dómum og virðist ekkert hafa með hagsæld að gera.
{loadposition nánar fréttir}