Hafnarfjörður lækkar gjald á sex tíma dvöl á leikskólum
Hafnarfjarðarbær boðar nú miklar breytingar á leikskólastarfi. Bærinn bætist í hóp þeirra sveitarfélaga sem lækka gjald fyrir börn sem vistuð eru á leikskólum í sex tíma eða skemur á dag.
Hafnarfjarðarbær hefur sent frá sér tilkynningu þar sem boðaðar eru breytingar á leikskólastarfi.
Tekið er fram að markmið aðgerðanna sé að auka sveigjanleika innan skóladagsins og fjölga fagfólki í leikskólum bæjarins.
Hafnarfjarðarbær bætist í hóp þeirra sveitarfélaga sem rukka minna gjald fyrir börn sem vistuð eru í sex tíma eða skemur á leikskólum.
„Dagvistun barna er gríðarstórt viðfangsefni samfélagsins alls og það er forgangsmál að þetta kerfi virki. Því þarf að leita allra leiða í því skyni að þróa leikskólastarf til að geta boðið þá þjónustu sem nauðsynleg er,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Kynntar voru ýmsar aðgerðir fyrr á þessu ári sem voru meðal annars 36 stunda vinnuvika fyrir allt starfsfólk, aukið samræmi milli fyrstu skólastiganna og heimgreiðslur til foreldra og stofn- og aðstöðustyrki til dagforeldra.
„Ég bind miklar vonir við að við séum að móta og skapa nýja framtíð leikskólanna með þessum breytingum,“ segir Rósa.
Helstu breytingar Hafnarfjarðar
Í tilkynningu Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að leikskólagjöld fyrir 8 klukkustundir á dag haldist óbreytt. Leikskólagjöld fyrir 6 klukkustunda vistun á dag lækka umtalsvert eða sem jafngildir 30% af heildarkostnaði af 40 klukkustunda vistun. Markmiðið með þessari breytingu sé að stytta viðveru barna á leikskólum og minnka álag á þau.
Tekið er fram að einhverjar af breytingunum muni taka gildi á þessu ári. Aðrar komi til eftir áramót.
Aðrar breytingar sem Hafnarfjarðarbær boðar eru meðal annars:
- Skipulagi leikskóladagsins verður skipt upp í kennslu og frístundastarf.
- Leikskóladagatal með skipulagðri kennslu verður 180 dagar.
- Stytting vinnuvikunnar hjá starfsfólki fest niður á ákveðna daga og tímabil.
- Boðið upp á sveigjanlegan dvalartíma barna.
- Opnunartími leikskóla verður frá 7:30-16:30.
Sjá má ítarlegri upplýsingar um breytingar Hafnarfjarðar á heimasíðu bæjarins.
Gagnrýna breytingu á gjaldskrá
Miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun þann 16. nóvember þar sem lýst var yfir áhyggjum af breytingum á gjaldskrá leikskólanna. Breytingin hafði þegar tekið gildi hjá Kópavogsbæ og á Akureyri.
Ein helsta breytingin er að leikskólagjöld fyrir þá sem vista börn sín í 6 tíma eða skemur lækka umtalsvert.
Talið er að lausnin hagnist helst þeim hópum sem hafa tök á því að hafa börn sín skemur á leikskóla yfir daginn og það séu yfirleitt efnameiri einstaklingar. Í ályktun sinni minnist ASÍ á að um 90% barna séu meira en 6 klukkustundir á dag á leikskóla.
Breytingin geri því lítið fyrir fólk sem neyðist til að vinna meira þar sem tekjur þess eru lágar, samkvæmt RUV.