Gott hjálpartæki en uppfyllir enga þörf
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafarsérfræðingur, segir snuð geta verið gott hjálpartæki fyrir foreldra.
Snuð uppfylli þó enga þörf hjá ungbörnum.
Skiptar skoðanir eru á því hvort snuðnotkun barna sé til góðs.
Sumir vilja meina að hún sé tilbúin þörf.
Samkvæmt sumum heimildum er sog nauðsynlegt nýburum og mikilvægt sálarþroska þeirra.
Þegar börn eldast og eru farin að borða meira af fastri fæðu hverfur líkamlega þörfin fyrir sogið en sálræna þörfin getur varað lengur.
Þar sem á þessu eru misjafnar skoðanir er góð regla að foreldrar fylgi sinni eigin sannfæringu í þessum efnum, því börn eru ólíkir einstaklingar með mismunandi þarfir.
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafarsérfræðingur, mælir með því að foreldrar bíði með að gefa barni snuð þar til það er farið að sjúga brjóstið vel.
„Börn sjúga snuð öðruvísi en þau sjúga brjóst og þegar þau eru svona ung þá eiga þau erfitt með að skipta á milli þessara sogaðferða.
Það er oft talað um að forledrar eigi að bíða með snuð þar til barnið er orðið þriggja vikna því þá er líklegra að þau geti skipt á milli þessara ólíku sogaðferða.
Snuð getur þó verið gott hjálpartæki fyrir foreldra þegar börn eru óróleg og eru þau oft gefin til að róa börnin á óheppilegum tímum, eins og þegar verið er að fara á milli staða,“ útskýrir Katrín Edda.
Aðspurð segir hún snuðin í raun ekki uppfylla neina þörf hjá ungbörnum heldur séu þau notuð til að teygja tímann fram að næstu gjöf.
„Ef barn vill sjúga þá vantar það næringu.
Barn er ekki tilbúið til að sjúga ekki neitt í lengri tíma.
Í rauninni er best að foreldrar meti hvert tilfelli fyrir sig því það er mjög einstaklingsbundið hvernig börn eru
Sum eru afskaplega róleg og þurfa einfaldlega ekki á snuði að halda á meðan önnur eru órólegri og kvarta mikið.“
Katrín Edda segir það ekki skipta miklu máli hvernig snuðið er í laginu eða úr hverju þau eru.
Hún tekur þó fram að á seinni árum hafi ljósmæður varað við snuðum búnum til úr latexi.
„Það er aukið latexofnæmi á meðal barna í heiminum og því hefur verið varað við snuðum úr latexi.“
Heimildir: fréttablaðið