Gott að muna í sumarfríinu
|

Gott að muna í sumarfríinu

Gott að muna í sumarfríinuLoksins, loksins sumarfrí. Það er vel hægt að eiga frábært og syndsamlegt sumarfrí um leið og sýnd er skynsemi í mataræði og hreyfingu.

Hvort sem þú ætlar að baða þig á sólarströnd, dingla þér í borgarferð eða gerast tjaldbúi í íslenskri sveit er fyrst og fremst dásamlegt að breyta hefðbundnum takti tilverunnar. Þá er freistandi að njóta lífsins lystisemda en hollt er að hafa á bak við eyrað að sýna skynsemi í mataræði og ástunda reglulega hreyfingu. Það er ávísun á sæla heimkomu.

Hafið eftirfarandi í huga á gleðistundum í sumar:

 • Gerið bara það sem ykkur þykir skemmtilegt og endurnærandi í sumarfríinu.
 • Slökkvið á farsímanum og eigið áreitislausar gæðastundir með vinum og fjölskyldu.
 • Ekki missa ykkur í óhóf og óhollustu þótt sumarfrí sé komið í allri sinni dýrð.
 • Sneiðið hjá lúgusjoppum og takið frekar með hollt og girnilegt nesti til að maula við þjóðveginn.
 • Sparið magapláss og hitaeiningaþörf fyrir valdar freistingar og hafið aðrar máltíðir dagsins í léttari kantinum.
 • Takið með eigið snakk í bílanesti. Það er hollara og forðar ykkur frá fitandi freistingum.
 • Farið varlega í sykraða kokteila og veljið ferskari drykki í staðinn.
 • Farið á matreiðslunámskeið. Það losar um streitu og gefur fyrirheit um nýtt bragð í eldhúsinu eftir fríið.
 • Eldið heima. Það eykur líkur á hollari kosti, er ódýrara og innihald matarins er öllum ljóst.
 • Farið á matarmarkaði. Það útheimtir hreyfingu og gefur kost á fersku hráefni og uppskeru.
 • Varist hlaðborð. Það er erfitt að standast freistingar þegar valkostirnir eru margir. Notið litla diska sem taka minni skammta og fáið ykkur mikið af ávöxtum og grænmeti.
 • Fyllið míníbarinn á hótelinu af hollu nasli, ávöxtum, grænmeti og hnetum.
 • Víkkið sjóndeildarhringinn, fótgangandi eða hjólandi, til að upplifa umhverfið.
 • Notið stiga í stað lyftu.
 • Æfið úti við í góðu veðri og náttúru. Það gefur fallegt útlit og hreint loft í lungun.
 • Verið ævintýragjörn og prófið nýtt sport, til dæmis þjóðaríþrótt landa sem þið heimsækið, eins og jóga á Indlandi, flamenkó á Spáni eða tai chi í Kína.
 • Notið eigin líkama til að gera þyngdaræfingar þegar þið komist ekki í ræktina.
 • Prófið innhverfa íhugun í fáeinar mínútur á dag. Það dregur úr kvíða og óróleika.
 • Gleymið vinnunni og látið vinnupóstinn eiga sig. Það hreinsar hugann og minnkar streitu.
 • Heimildir: fréttablaðið

logo

oli
Author: oli

Vefstjóri