Gjaldskrárhækkanir geti orðið til þess að foreldrar sniðgangi leikskóla

Gjaldskrárhækkanir geti orðið til þess að foreldrar sniðgangi leikskóla

Gjaldskrárhækkanir geti orðið til þess að foreldrar sniðgangi leikskólaFramkvæmdastjóri Jafnréttisstofu segir mögulegt að gjaldskrárhækkanir í Kópavogi valdi því að foreldrar í viðkvæmri stöðu sniðgangi leikskóla og hafi börn sín heima. Stofnunin minnir á að sveitarfélögum beri skylda til að meta áhrif slíkra ákvarðana.

Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu óttast að hækkun leikskólagjalda í Kópavogi, hjá þeim sem ekki geta stytt dvöl barna sinna, leiði til þess að foreldrar í viðkvæmri stöðu hafi börn sín heima. Lög skyldi sveitarfélög til að meta áhrif slíkra ákvarðana á jafnrétti í víðum skilningi.

Ákvörðun Kópavogsbæjar um að hækka leikskólagjöld þeirra sem ekki geta takmarkað dvöl barna við sex klukkustundir á dag hefur vakið blendin viðbrögð og margir óttast að hún grafi undan jafnrétti. Akureyrarbær hefur tilkynnt samskonar áform. Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, segir mikilvægt að svona ákvarðanir séu vel undirbyggðar.

„Það þarf að velta fyrir sér á hvaða hópa ákvörðunin hefur mest áhrif, hverjir eru á bak við Excel-skjalið og hvaða áhrif þessar ákvarðanir geta haft á þá hópa,“ segir hún.

Í frétt um málið á vef Jafnréttisstofu segir að sveitarfélög þurfi að afla allra þeirra gagna sem mögulega geta varpað ljósi á áhrifin á ólíka hópa foreldra, greina gögnin og taka ákvarðanir út frá þeim en ganga ekki út frá því að ákvörðunin hafi sömu áhrif á alla.

Lykilatriði í því að jafna aðgengi að vinnumarkaði

Katrín segir gott aðgengi að leikskólum á viðráðanlegu verði lykilatriði í því að jafna stöðu ólíkra hópa á vinnumarkaði.

„Við höfum áhyggjur af jafnrétti kynjanna, til dæmis, þegar kemur að svona ákvörðunum.“

Þá sýni rannsóknir að gjaldskrárhækkanir geti bitnað illa á viðkvæmum hópum, svo sem tekjulágum mæðrum af erlendum uppruna. „Og mögulega hrakið fólk frá því að nýta sér leikskólaþjónustu, það er líka það sem við viljum brýna fyrir sveitarfélögunum.“

Nýju lögin gera meiri kröfur

Í nýjum lögum um stjórnsýslu jafnréttismála, sem tóku gildi árið 2021, eru kröfur til sveitarfélaga auknar. Jafnréttisáætlanir einskorðast ekki við starfsmannamál heldur eiga að taka til allrar starfsemi. Það þarf því að meta jafnréttisáhrif ákvarðana sem snúa að þjónustu við íbúa og ráðstöfun fjármagns. Jafnréttisstofa hefur eftirlit með þessu og hyggst á næstunni kalla eftir upplýsingum um uppfærðar jafnréttisáætlanir sveitarfélaga.

Hefur það afleiðingar fyrir sveitarfélögin ef þau verða uppvís af því að hafa ekki gert þessar greiningar?

„Það er ekkert sem liggur augljóst fyrir, það þarf bara að koma í ljós,“ segir Katrín Björg.

Stofnunin hyggst á næstunni senda út spurningakönnun til sveitarfélaga og mun fylgja honum eftir með fræðslu.

Í frétt jafnréttisstofu segir að markmið og aðgerðir sveitarfélaga eigi að koma í veg fyrir margsháttar mismunun, „á grundvelli kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.“

Jafnframt eiga sveitarfélögin að vinna gegn fjölþættri mismunun, þ.e. að einstaklingum sé mismunað á grundvelli fleiri en einnar af þessum ástæðum þar sem þessir hópar eru oft í viðkvæmri stöðu, samkvæmt RUV.

oli
Author: oli

Vefstjóri