Geta átt von á um mörg hundruð þúsunda endurgreiðslu
Foreldrar barna 18 mánaða og eldri geta átt von á mörg hundruð þúsunda endurgreiðslu eftir áramót frá Reykjavíkurborg vegna greiddra dagforeldragjalda. Ný gjaldskrá og aukinn stuðningur við foreldra voru samþykkt á fundi borgarráðs í dag. Alls eru um 100 til 200 börn á þessum aldri enn hjá dagforeldrum.
Foreldrar barna 18 mánaða og eldri munu greiða sama gjald til dagforeldra og í leikskóla frá og með 1. febrúar á næsta ári. Breytingin verður afturvirk frá 1. júlí á þessu ári.
Ný gjaldskrá dagforeldra var samþykkt í borgarráði í dag þar sem einnig var samþykktur nýr þjónustusamningur við dagdoreldra. Samkvæmt honum hefur stofnstyrkur verið hækkaður í eina milljón og árlegur aðstöðustyrkur í 150 þúsund.
„Það er ýmislegt annað. Við erum að jafna kjörin varðandi ýmis fríðindi. Við viljum að dagforeldrar fái frítt í sund eins og leikskólakennarar og menningarkort. Við erum aðeins að jafna leikinn,“ segir Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, um breytingarnar sem samþykktar voru í dag.
Hann segir þó stærstu breytinguna vera endurgreiðslu til foreldra barna sem eru 18 mánaða eða eldri og eru enn hjá dagforeldri. Ef gert er ráð fyrir því að leikskólagjald sé um 30 þúsund krónur á mánuði og mánaðargjald dagforeldra sé um 130 þúsund geta foreldrar þessara barna verið að fá um hundrað þúsund krónur endurgreitt á mánuði. Afturvirk endurgreiðsla getur því numið hundruðum þúsunda.
„Við erum að breyta gjaldskrá þannig það þarf að samþykkja það í borgarstjórn og það verður gert í janúar. Það er svo stutt í jól. Í kjölfarið fá foreldrar endurgreiðslur frá því síðasta sumar. Þetta er mikil búbót fyrir þessi heimili,“ segir Einar og að það sé meirihlutanum mjög mikilvægt að styðja vel við barnafjölskyldur.
„Það eru háir vextir, lánin hækka og það er verðbólga. Við erum að gera það sem við getum til að mæta þessum tiltekna hópi sem er að bera þungar byrðar þessi misseri og ég er ánægður að við náðum að klára það mál.“
400 börn á bið
Alls eru um 400 börn 18 mánaða og eldri að bíða eftir leikskólaplássi í dag í Reykjavík. Einar segir það ærið verkefni að koma þeim að í leikskóla en að það sé unnið að því.
„Við erum í ótrúlega miklu viðhaldsátaki í leikskólunum .Það eru 330-40 pláss úti því við erum að gera við leikskóla. Við erum með tímabundin úrræði annars staðar og erum að færa börn á milli á sama tíma og við erum að panta nýja leikskóla og byggja þá. Við erum að vaxa og börnum fjölgar.“, samkvæmt visir.