Fleiri börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík en á sama tíma í fyrra

Fleiri börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík en á sama tíma í fyrra

680 börn voru á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í lok september. Þar til viðbótar hefur 236 börnum verið úthlutað leikskólaplássi án þess að hafa fengið boð um hvenær vistun geti hafist.

Fleiri börn eru á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík en á sama tíma í fyrra. Í lok september voru 680 börn 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi í leikskólum sem borgin rekur en þau voru 472 á sama tíma í fyrra.

Í svari skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að sá árgangur sem útskrifaðist úr leikskóla í vor, börn fædd 2017, sé fámennasti árgangurinn í þjónustu skóla- og frístundasviðs. Árgangurinn sem er að byrja í leikskóla, börn fædd 2021, sé aftur á móti einn sá stærsti en mismunur á fjölda í árgöngunum sé samkvæmt þjóðskrá 284 börn.

Draugaplássin

Þann 26. september voru 236 börn komin með boð um vistun á leikskóla í Reykjavík en höfðu ekki fengið upphafsdagsetningu vistunar. Þessi pláss hafa verið kölluð draugapláss, pláss sem hefur verið úthlutað að nafninu til án þess að útlit sé fyrir að börnin komist að á leikskólunum í náinni framtíð. Þetta kemur til vegna manneklu í leikskólum borgarinnar.

Samkvæmt svari Reykjavíkurborgar er sífellt verið að ganga frá fleiri ráðningum í stöður á leikskólum og var búið að ráða í 92,8% grunnstöðugilda þann 22. ágúst. Búast megi við því að sá fjöldi barna sem ekki hafa fengið dagsetningu muni lækka töluvert á næstunni.

Aðgerðir boðaðar í kjölfar mótmæla í fyrrahaust

Í fyrrahaust stóðu foreldrar sem biðu eftir leikskólaplássum fyrir mótmælum í Ráðhúsinu sem þau kölluðu hústökuleikskóla. Í kjölfar mótmælanna kynntu fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn sex aðgerðir í leikskólamálum.

Aðgerðirnar voru eftirfarandi; að flýta opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi, nýta laust húsnæði í eigu borgarinnar, stofna nýjan leikskóla í Fossvogi, stækka leikskólann Steinahlíð, hækka niðurgreiðslur til dagforeldra og endurskoða verklag leikskólainnritunar.

Efndir aðgerða í leikskólamálum

Samkvæmt svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu er staðan á þessum aðgerðum sem hér segir:

  1. Opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi flýtt
    – Ævintýraborg á Nauthólsvegi opnaði í áföngum í september 2022.
  2. Laust húsnæði borgarinnar nýtt til að taka við nýjum börnum
    – Tveir dagforeldrar hafa fengið aðstöðu í húsnæði borgarinnar við Völvufell.
    – Athugun var gerð á að nýta frístundaheimili og félagsmiðstöðvar að einhverjum hluta undir leikskólastarfsemi. Við nánari skoðun reyndist of mikið rask að nýta sama húsnæði.
  3. Nýr leikskóli í Fossvogi
    – Tvær lóðir fyrir leikskóla í Fossvogi eru í deiliskipulagsferli.
    Nýir leikskólar frá síðasta hausti:
    – Nýr leikskóli við Hallgerðargötu er að opna um þessar mundir.
    – Ævintýraborg í Vogabyggð opnaði í desember 2022
  4. Stækkun Steinahlíðar
    – Hér hefur flækt málið að miklar breytingar standa til í nágrenni við svæðið og því óvissa hvort hægt verði að stækka leikskólann.
    – Hins vegar hafi verið farið í stækkanir á öðrum leikskólum, stækkanirnar hafa að hluta verið nýttar fyrir nemendur leikskóla þar sem fara hefur þurft í framkvæmdir, meðal annars vegna myglu.
  5. Hækkun niðurgreiðslu til dagforeldra
    – Stofnstyrkir til dagforeldra hafa verið hækkaðir, boðið verður upp á árlegan aðstöðustyrk, endurmenntun verður bætt og aðgengi að leiguhúsnæði fyrir starfsemi dagforeldra aukið, niðurgreiðsla til barna sem náð hafa 18 mánaða aldri hækkar verulega.
  6. Verklag leikskólainnritunar endurskoðað
    – Úthlutun leikskólaplássa fyrir haustið 2023 fór fram miðlægt frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs í samstarfi við leikskólastjóra. Með breyttu fyrirkomulagi gekk úthlutunin hraðar. Áður en úthlutun hófst var sýn foreldra á stöðu á biðlista birt þannig að nú geta foreldrar séð númer hvað barn þeirra er á biðlista.
    – Stefnt er að því að samræma innritun fyrir borgarrekna og sjálfstætt starfandi leikskóla samhliða nýjum rekstrarsamningum sem eru í undirbúningi, samkvæmt RUV.
oli
Author: oli

Vefstjóri