Fjöldi leikskóla í Reykjavík geta ekki haldið úti fullri starfsemi vegna manneklu
Svokallaðar fáliðunaráætlanir eru í gildi á fimm leikskólum í Reykjavík, þar sem starfsemi skólana er skert um lengri tíma vegna manneklu. Víðar þarf að senda börn heim dag og dag. Foreldri segir starfumhverfi í leikskólum um að kenna.
Nemendur í leikskólanum Sæborg í Reykjavík þurfa að vera heima einn dag í viku um óákveðinn tíma vegna langvarandi manneklu. Sambærilegar fáliðunaráætlanir eru í gildi á fimm borgarreknum leikskólum og að auki hafa fleiri leikskólar þurft að grípa til þessa einn og einn dag. Foreldri segir stöðuna afleiðingu af því starfsumhverfi sem borgin bjóði starfsfólki upp á.
Í pósti sem leikskólastjóri sendi foreldrum barna í leikskólanum Sæborg var tilkynnt um fáliðunaráætlun sem felur í sér að hver deild leikskólans verði lokuð einn dag í viku. Er það meðal annars vegna mönnunarvanda; veikindaleyfa og hversu illa gangi að ráða fólk til starfa.
Anna Kristín Blöndal Jóhannesdóttir foreldri barns í Sæborg segir áætlunina koma illa við foreldra. Hún vilji þó beina orðum sínum að starfsumhverfi í leikskólum.
„Ég er hjúkrunarfræðingur sjálf þannig að ég þekki þetta mjög vel á eigin skinni, hvað það er að vinna í mikilli manneklu og vinna í kvennastétt sem er ekki metin að verðleikum. Bara rétt eins og leikskólastarfsfólk. Og eina, eina lausnin í svona aðstæðum er auðvitað bara að bæta vinnuaðstæður og gera betur við starfsfólkið.“
Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu segir að ráðningar gangi betur í ár en í fyrra, þó enn vanti upp á fulla mönnun. Erfitt sé að segja til um hvort og þá hvar þurfi að grípa til fáliðunaraðgerða, það gæti þurft vegna veikinda eða vegna þess að einhver hætti störfum.
Anna Kristín segir stöðuna í Sæborg vera þá að starfsfólk hafi einfaldlega misst heilsuna vegna erfiðra starfsaðstæðna.
„Það eru þó nokkrir í veikindaleyfi og svo náttúrulega bara hættir fólk líka, það bara lætur ekkert bjóða sér þetta, ég meina, hvað er; 3% atvinnuleysi á Íslandi. Það er ekkert mál að fá aðra vinnu sko. Reykjavíkurborg þarf bara satt best að segja á mannamáli að girða sig í brók.“
Einnig eru dæmi um að leikskólar sem ekki eru fullmannaðir hafi ekki getað fyllt öll sín pláss. Þann 26. september voru 236 börn komin með boð um vistun á leikskóla í Reykjavík en höfðu ekki fengið upphafsdagsetningu vistunar, samkvæmt visir.