Fjölskyldudagur á skíðasvæðunum
Börn yngri en 12 ára fá frítt í lyfturnar, heitt kakó og fría skíðakennslu – og sum skíðasvæðin bjóða öllum frítt á skíði.
Það er Alþjóðaskíðasambandið sem stendur fyrir alþjóðlegu átaki þann 22. janúar sem kallast World Snow Day eða Snjór um víða veröld. Skíðasamband Íslands, skíðafélögin og skíðasvæðin eru með í átakinu sem beinist sérstaklega að börnum 12 ára og yngri. Frítt verður inn fyrir þennan aldurshóp á öll skíðasvæði landsins í tilefni dagsins. Sum skíðasvæðin ætla reyndar að bjóða öllum frítt á skíði til að mynda Hlíðarfjall, Oddskarð og Tindastóll. Þórunn Harðardóttir, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands, segir að boðið verði upp á kakó og allstaðar verði boðið upp á fría skíðakennslu fyrir börn.
„Og svo reiknum við með að ýmislegt verði boðið upp á til viðbótar, þotusvæði, gerðar skemmtilegar skíðaleiðir og mikið kapp lagt á að útbúa eitthvað skemmtilegt fyrir börnin,“ segir Þórunn.
„Og það er náttúrulega gaman að segja frá því að það er snjór á öllum skíðasvæðum á landinu,“ bætir hún við. „Veðurspáin er bara nokkuð góð á öllum skíðasvæðunum, þannig að það er bara upplagt að taka frá sunnudaginn og fjölskyldurnar að flykkjast í fjöllin.“
{loadposition nánar fréttir}