Fimmtungur fær aldrei hrós
Fimmta hvert barn segist aldrei eða sjaldan fá hrós frá fullorðnum og um 90 prósent líkar vel við kennarana sína.
Þetta er meðal þeirra ótal staðreynda sem koma fram í könnun sem Rannsóknir og greining vann fyrir menntamálaráðuneytið.
Könnunin er yfirgripsmikil, hefur verið gerð í tuttugu ár og er ætlað að bæta umhverfi barna svo þeim líði betur og lendi síður á glapstigum á unglingsárunum.
Tíundi hver krakki á þessum aldri segir að kennararnir geri oft eða stundum lítið úr einhverjum í bekknum. Fimmtungur segist langa stundum eða oft að hætta í skólanum. Tæpum helmingi barna í fimmta bekk finnst námið of létt en hlutfallið minnkar eftir því sem þau eldast.
Um 20 prósent eiga erfitt með að sofna á kvöldin, 92 prósent barna á þessum aldri eiga farsíma og á 17 prósentum heimila þeirra er talað annað tungumál ásamt íslensku. Fjórðungur barnanna les ekkert annað en skólabækurnar.
„Samfélagið tekur allt þátt í að nýta sér þessar niðurstöður. Foreldrasamfélagið, skólasamfélagið, íþróttahreyfingin og forvarnarstarfið. Þannig að það eru allir að leggjast á árina um að efla börnin og styrkja í sínu lífi,“ segir Oddný Eyjólfsdóttir deildarstjóri skóladeildar í Garðabæ um niðurstöður könnunarinnar.
{loadposition nánar fréttir}