Fær óútskýrð svefnköst fjögurra ára

Fær óútskýrð svefnköst fjögurra ára

Svefnköst tæplega fjögurra ára gamallar stúlku hafa ekki fengist útskýrð. Hún dettur í svefn sem ekkert fær haggað og jafnvel þrisvar á dag, kannski í miðri máltíð, í rólunni í leikskólanum eða úti í búð.

Svefnköst tæplega fjögurra ára gamallar stúlku hafa ekki fengist útskýrð. Móðir hennar segir að þrátt fyrir góðan vilja einkennist mál dóttur hennar af úrræðaleysi. Svefnköstin eru mjög óvenjuleg og segir Landspítalinn langan tíma geta tekið að fá rétta greiningu.

Þórdís er lífleg ung telpa en á daginn sofnar hún skyndilega og í hvaða aðstæðum sem er. Sylvía Dögg Ástþórsdóttir er móðir Þórdísar og segir hana festast í eins konar svefni sem stundum er alls ekki hægt að vekja hana úr. Þórdís getur fallið í svefn janvel þrisvar á dag. Stundum hreinlega snögglega þegar hún er að róla í leikskólanum.

„Hún getur alveg sofnað sitjandi og vanalega dettur þá bara þannig að ef hún er að sofna í sófa þá bara þarf að passa að hún sé ekki á endanum heldur þar sem hún getur örugglega dottið. Stundum opnar hún augum en maður sér líka bara að hún er ekkert með okkur. Þetta lítur þannig út að þegar maður sér þetta að það er eins og hún sé gersamlega meðvitundarlaus. Hún hefur farið í blóðprufu sofandi og það voru engin viðbrögð. Svo hefur hún farið í blóðprufu vakandi og þar voru sko viðbrögð,“ segir Sylvía.

Ekki gerð rannsókn á svefni á daginn

Gerð var rannsókn á nætursvefni Þórdísar á Landspítalanum en hætt var við að rannsaka svefnköstin á daginn – sem einmitt eru að hrjá Þórdísi.

„Það voru bara í rauninni engar skýringar, hún væri bara of ung, við fengum í rauninni ekkert betri svör en það. Við fórum eiginlega bara eitt spurningamerki út af spítalanum.“

Einkennin hófust síðasta haust og síðan í janúar hefur Sylvía leitað svara fyrir dóttur sína. Ástandið minnir á drómasýki sem er taugasjúkdómur en fyrstu einkenni hans koma þó oftast fram á bilinu 12-14 ára. Enn er alls óvíst hvað amar að Þórdísi. Mæðgurnar hafi þó mætt góðu viðmóti, en stundum kannski líka óviðeigandi.

„En við höfum alveg líka mætt í heilbrigðiskerfinu svona setningum „Æ hvað þetta er krúttlegt, hún er bara svo þreytt.“

„Svoleiðis viðmót en þetta er fyrir mér löngu hætt að vera eitthvað voða krúttlegt. Ef það kemur svo ekkert út úr þessari næturrannsókn þá þarf náttúrulega bara að skoða eitthvað annað því þetta er svo langt frá því að vera eðlilegt.“

Í svari frá Landspítalanum vegna máls Þórdísar segir:

Landspítalinn leggur áherslu á góða þjónustu við alla, og sérstaklega börn. Í sumum tilfellum getur tekið langan tíma að komast að réttri greiningu, stundum með aðstoð erlendis frá. Fullur skilningur er á áhyggjum foreldra af börnum með óútskýrð einkenni og við gerum okkar besta til að styðja við fjölskyldur þeirra, samkvæmt RUV.

 

oli
Author: oli

Vefstjóri