Fær ekki fæðingarorlof milli landa

Fær ekki fæðingarorlof milli landa

Norrænu þjóðþingin ætla að setja slíkar landamærahindranir á dagskrá í vetur. Mistekist hefur að eyða slíkum landamærahindrunum milli Norðurlandanna.

 

Norðurlandaþjóðunum hefur mistekist að eyða landamærahindrunum sín á milli, þótt það hafi verið á dagskrá Norðurlandaráðs árum saman. Skattar, félagslegar bætur og fæðingarorlof eru á meðal þess sem illa gengur að flytja milli landa.

Róbert Aron er bara fimm mánaða, en hefur þegar þurft að takast á við skrifræðisbasl og norræna milliríkjasamninga. Ástæðan er sú að foreldrar hans búa á Íslandi, þar sem móðir hans starfar fyrir norska ferðaskrifstofu. Hún greiðir því skatta og skyldur í Noregi og taldi sig hafa þar félagsleg réttindi – eins og til fæðingarorlofs. En raunin reyndist önnur.

„Þar sem ég er að vinna í öðru landi en ég bý, þá dett ég á milli, og á ekki rétt á neinu, neins staðar,“ segir Valgerður Þ. Snæbjörnsdóttir, móðir Róberts.

Hún fær því hvorki fæðingarorlof greitt í Noregi né Íslandi, en hér fær hún þó fæðingarstyrk. Hún þarf því að sætta sig við um 30.000 krónur – eftir skatta – í þrjá mánuði, í stað 200.000 króna fæðingarorlofs á mánuði – í tíu mánuði.

Mál Róberts litla og foreldra hans er ekkert einsdæmi. Fjöldi Norðurlandabúa lendir á hverju ári í vandræðum með að flytja tekjur sínar og félagsleg réttindi á milli landa – þótt leiðtogar Norðurlandanna hafi árum saman fundað og rætt um að eyða landamærahindrunum milli landanna.

Það er enn á dagskrá, á þingi Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn.

Þingforsetar norrænu þjóðþinganna ákváðu í gær að öll þingin myndu á sama tíma ræða landamærahindranirnar – og nú væri mál til komið að eyða þeim. Þá funduðu samstarfsráðherrar Norðurlandanna í dag um sama mál. Fyrir fólk í stöðu Róberts og foreldra hans, er mikið í húfi.

„Mér finnst þetta náttúrulega bara ömurlegt. Að fyrsti tíminn með fyrsta barn, þá á maður að geta notið tímans með barninu. Þetta tekur rosalega mikla orku frá manni sem maður gæti verið að nýta til að sinna barninu,“ segir Valgerður.

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri