Fæðingarþjálfarar vinsælir
|

Fæðingarþjálfarar vinsælir

Fæðingarþjálfarar vinsælirÞjónusta “fæðingarþjálfara” eða “doula” er tiltölulega ný af nálinni hér á landi. Þjónusta af þessu tagi er þó að sækja í sig veðrið og segir Soffía Bæringsdóttir hóp lærðra doula á Íslandi fara stækkandi.

“Við höfum verið tvær virkar “doulur” hér á landi síðasta ár en í haust sóttu þrettán manns doulu-námskeið hjá Penny Simkin, stofnanda Doulusamtaka Bandaríkjanna.

“Við höfum verið tvær virkar “doulur” hér á landi síðasta ár en í haust sóttu þrettán manns doulu-námskeið hjá Penny Simkin, stofnanda Doulusamtaka Bandaríkjanna. Við erum því stækkandi hópur,” útskýrir Soffía Bæringsdóttir doula en hún stóð fyrir því að fá Penny Simkin hingað til lands.

Sjálf hefur Soffía starfað sem doula frá árinu 2008 og segir mikinn kipp hafa komið í eftirspurn eftir þjónustu hennar á síðasta ári. En hvert er hlutverk doulu?

“Doula er stuðningur við konu og fjölskyldu hennar fyrir, í og eftir fæðingu. Brandarinn er að ég sé eins og þjálfari á hliðarlínunni sem öskrar, “áfram, þú getur þetta,” sem lýsir ágætlega inntakinu,” útskýrir Soffía. Hún ítrekar að stuðningur doulu felist í andlegum stuðningi, hún komi ekki í stað ljósmóður eða læknis.

“Það má segja að doula sé millistigið á milli mömmu viðkomandi og heilbrigðisstarfsmanni, einhver sem styður við tilfinningar og leiðbeinir á jafningjagrundvelli. Doula veitir algjörlega samfellda þjónustu og við reynum að hlúa að því að fæðingarreynsla fjölskyldunnar verði sem best. Við tökum ekki afstöðu til fæðingarinnar sem slíkrar.”

Spurð hvernig viðtökur doula fái frá ljósmæðrum og starfsfólki innan heilbrigðissviðs segist Soffía aldrei hafa fengið neikvæð viðbrögð. “Ég hef fengið miklu betri móttökur en ég þorði að vona. Auðvitað hef ég fengið spurningar eins og hvort raunverulega sé þörf fyrir mig en ekki á neikvæðan hátt, frekar af forvitni. Ég fæ líka oft að heyra frá ljósmæðrum að ég geri starf þeirra auðveldara.”

Soffía segir þá sem leita aðstoðar doulu koma úr öllum áttum og ekki einskorðast við konur sem eigi erfiðar fyrri fæðingar að baki, frumbyrjur leiti einnig eftir aðstoð hennar. Með aukinni eftirspurn stendur nú til að stofna félag kringum doulur á Íslandi þar sem hægt verður að leita upplýsinga. “Það er í burðarliðnum,” segir Soffía. Heimasíða Soffíu er doula.is.

Heimildir: vísir

oli
Author: oli

Vefstjóri