Fæddi strák 12.12.12 og bróðurinn 09.09.09
Þetta er ótrúleg tilviljun, segir Guðrún Sólveig. Maðurinn hennar missti því miður af fæðingunni.
„Eldri strákurinn kom sjálfur í heiminn annars hefði ég verið sett af stað tveimur dögum seinna. Yngri strákurinn fékk hins vegar hjálp vegna meðgöngusykursýki,” segir Guðrún Sólveig Ríkarðsdóttir Owen, sem eignaðist strák í fyrradag og er hann því fæddur þann 12.12.12. Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá stúlkubarni sem fæddist sama dag.
Svo ótrúlega vill til að Guðrún Sólveig á fyrir son sem eru fæddur 09.09.09.
„Við vonuðumst náttúrulega eftir þessu en þetta er samt ótrúleg tilviljun,” segir Guðrún Sólveig.
Fæðingin í fyrradag gekk vel þótt drengurinn hafi verið tekinn með sogklukku. Strákurinn var 55 sentímetrar á lengd og 4.125 grömm eða um 16,5 mörk.
Guðni Jónsson, maður Guðrúnar Sólveigar, starfar sem yfirvélstjóri á Baldvini Njálssyni en hann var ekki viðstaddur fæðinguna nú.
„Nei, því miður er hann úti á sjó. Hann er mánuð í einu úti en kemur í land í næstu viku. Við erum svo heppinn að hann verður heima út allan janúar. Ég held að þetta hafi verið miklu erfiðara fyrir hann en mig,” segir hún.
Guðrún Sólveig segir það tilviljun eina að drengirnir hafi komið í heiminn á þessum dögum. Hvorki hún né maðurinn hennar eru fædd á degi með slíka talnaröð né synir Guðna sem hann á af fyrra sambandi. „Ég er fædd 30. apríl 1976 og hann 27. október 1968,” segir hún hlæjandi. „Ég veit ekki af hverju bræðurnir ákváðu að vera svona spes.”
Spurð hvort Guðrún Sólveig stefni á að eignast fleiri börn sem myndu hafa svipaðan fæðingardag segir hún það ekki á dagskránni. „Ég fékk sms í gær þar sem ég var spurð hvort ég ætlaði að eignast barn 7.9.13 en það er sko langt í frá,” segir hún og skellir upp úr.
{loadposition nánar fréttir}